Mál Jóns Þrastar vakti mikla athygli í fyrra en Jóns var lengi leitað án árangurs. Írski fjölmiðillinn Independent.ie birti í nótt frétt þar sem það er sagt að búið sé að tilkynna lögreglunni á Íslandi að Jón hafi verið myrtur „af slysni“ af öðrum Íslendingi. Sagt er að það hafi gerst í kjölfar þess að mennirnir rifust vegna eyðslu á spilapeningum. Þá segir í frétt Independent að maður sem situr í fangelsi hér á Íslandi hafi spilað lykilhlutverk í að koma þessum upplýsingum til lögreglu.
Lögreglunni á Íslandi hefur verið gert viðvart að Jón hafi tekið þátt í ólöglegum póker leik á föstudagskvöldinu og tapað þar meira en 4 þúsund evrum, eða um 650 þúsund íslenskum krónum. Þessi peningur var í eigu íslensks glæpamanns samkvæmt heimildum.
Þessar 4 þúsund evrur áttu að fara í fleiri leikmenn en sagt er að Jón hafi keypt sig inn í einn stóran leik og tapað öllum peningnum. Þá er einnig sagt að Jón hafi reynt að fara úr leiknum þegar hann byrjaði að tapa en fékk ekki leyfi til þess. Þegar Jón fór út úr húsi morguninn eftir að hann tapaði peningnum er talið að hann hafi farið að hitta manninn sem átti peninginn sem hann tapaði kvöldið áður.
Talið er að maður sem situr í fangelsi hér á landi vegna þjófnaðar hafi haft samband við fjölskyldu Jóns í gegnum annan einstakling. Maðurinn í fangelsinu vildi fá að tala við einkaspæjara sem systir Jóns réði til að leysa málið en fangelsisyfirvöld vildu ekki leyfa það. Maðurinn í fangelsinu náði þá að koma sér í samband við fjölskyldu Jóns í gegnum konu sem kom upplýsingum til fjölskyldunnar.
Maðurinn er meðal annars sagður hafa sagt fjölskyldunni að Jón hafi verið myrtur „af slysni“ af manninum sem lánaði honum peninginn. Þá er sagt að þessi meinti morðingi búi hér á Íslandi.
Ekki er talið að Jón hafi verið viðriðin glæpi líkt og maðurinn sem hann fékk peninginn hjá. Hins vegar er talið að Jón hafi kynnst manninum og öðrum glæpamönnum þegar hann vann sem leigubílsstjóri.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við DV að málið sé á forræði írskrar lögreglu og íslensk lögregla muni því ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Hann staðfesti þó að ýmsar upplýsingar hafi verið skoðaðar í tilraunum lögreglu til að finna út um afdrif Jóns.