Áslaug lést eftir að henni var kastað fram af svölum á 10. hæð í Engihjalla 9. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og var maðurinn sem myrti Áslaugu dæmdur í 14 ára fangelsi. Dómurinn var síðan þyngdur um 2 ár en Gerður hefur alltaf verið ósátt við dóminn og vill að málið verði tekið upp að nýju.
Gerður hefur tvisvar komið í viðtal við DV vegna málsins, fyrst árið 2005 og aftur árið 2011. Í bæði skiptin lýsti hún baráttunni við íslenska réttarkerfið en hún er ósátt við að morðingi dóttur sinnar hafi aðeins verið ákærður fyrir morðið en ekki fyrir að hafa nauðgað Áslaugu. Lögregluskýrslur benda sterklega til nauðgunar og fundust áverkar á ytri kynfærum hennar.
Skömmu áður en Áslaug var myrt hafði hún eignast nýjar nærbuxur úr satíni, þær fundust rifnar í buxnavasa mannsins. Þegar maðurinn var spurður af hverju hann hefði verið með nærbuxurnar á sér og hvernig hann gæti útskýrt áverkana sem fórnarlamb hans hafði á kynfærum sagði hann einfaldlega: „Það er bara eitt orð yfir það, harkalegt kynlíf.“
Gerður vill að dómstóll staðfesti og viðurkenni að Áslaugu hafi verið nauðgað. Í viðtalinu við Vikuna segir Gerður að hún hafi í gegnum árin bent á sönnunargögn sem sanna að Áslaugu hafi verið nauðgað. Samkvæmt Gerði hafa sönnunargögnin þó aldrei verið tekin til greina.
„Smekkbuxurnar voru girtar niður að hnjám og önnur krækjan var skemmd,“ segir Gerður. „Tölurnar voru boltaðar niður, þess vegna sást ekkert á tölum eða tölufestingum. Buxurnar voru vafðar um ökkla og kálfa. Réttarlæknir sagði að buxurnar hafi verið þannig dregnar niður, áður en hún lenti á jörðinni, því þær féllu þétt að fótleggjum hennar. Þetta kom hvorki fram í yfirheyrslum í héraðsdómi né Hæstarétti.“
Þá segir Gerður að önnur gögn sanni að um hafi verið að ræða fólskulega nauðgun og líkamsárás. Meðal þess sem hún nefnir eru satín-nærbuxurnar. „Þær voru tættar í sundur á báðum hliðum,“ segir Gerður.
Gerður segir frá þeim áverkum sem voru á dóttur hennar. Marblettir og stór kúla á enni, rispur í andliti, mar á höndunum og áverkar á kynfærum er meðal þess sem hún telur um. „Með dómi sínum gefur Hæstiréttur í skyn að henni hafi verið veittir þessir áverkar með hennar samþykki. Þessir áverkar voru hvorki ræddir í yfirheyrslum, í Héraðsdómi Reykjaness né í Hæstarétti,“ segir Gerður.
„Ríkissaksóknari í Hæstarétti minntist hvorki á áverka sem hún var með eftir ákærða né áverkana sem hún skildi eftir á honum,“ segir Gerður og bendir á að það sé augljóst að Áslaug hafi streist á móti manninum.
Gerður hefur undanfarin ár skrifað greinar og farið fram á að málið verði tekið upp á nýjan leik. Í hvert skipti sem hún gerir það þarf hún að rifja upp málið og skoða dóminn. „Það er rosalega erfitt. Þetta brýtur mann niður í hvert skipti,“ segir Gerður en hún segir að það komi ekki til greina að hún sætti sig við dóminn og gleymi málinu. „Ég get það bara ekki, ég er ófær um það. Ég er ófær um að sætta mig við þetta.“