Elísabet Karissa Milliard er 52 ára gömul kona í afar erfiðri stöðu. Hún er tekjulaus og húsnæðislaus. Elísabet neytir hvorki áfengis né annarra vímugjafa en segir veikindi hafa komið henni í þessa stöðu. Elísabet hefur undanfarið haldið til í litlu herbergi á Ásbrú en hún óttast að lenda á götunni um helgina því hún gat ekki greitt leiguna þann 1. október. Þann dag átti hún von á fjárhagsaðstoð frá borginni enda hafði rafræn umsókn hennar um aðstoð hefði verið samþykkt. Þar stendur að áætluð aðstoð hennar sé 175.006 krónur.
En það sem Elísabetu var boðið var 175 þúsund króna lán frá Borgarsjóði sem hún þarf að greiða þann 1. nóvember ellegar verði fari í innheimtuaðgerðir. Ennfremur þarf hún að greiða stimpilgjald vegna lánsins.
„Ef ég hefði viljað lán hefði ég farið í banka. En ég var að leita eftir fjárhagsaðstoð. Ég er í skuld og vil ekki lenda í meiri skuld,“ segir Elísabet í spjalli við DV.
Elísabet þjáist af áfallastreituröskun, geðhvörfum, kvíða og félagsfælni. Auk þess er hún oft mjög illa haldin af mígreni. Hún hefur skilað læknisvottorðum til Tryggingastofnunar og sótt um örorkumat.
Elísabet telur að velfverðarsvið Reykjavíkurborgar hafi ákveðið að breyta fjárhagsaðstoð hennar í lán þar sem starfsfólk hafi fengið upplýsingar um að hún væri að sækja um örorkumat og örorkubætur. En ef svo færi að hún fengi greiddar út örorkubætur fyrir 1. nóvember næstkomandi myndu 175.000 krónur af þeim hverfa í endurgreiðslu af láninu.
„Ég er fátæk og ef ég skrifa undir þetta skuldabréf þýðir það enn meiri fátækt fyrir mig,“ segir Elísabet.
Hún bjó í húsbíl í sumar en fyrir tveimur mánuðum fékk hún leigt herbergi á Ásbrú. Hún gat ekki greitt leiguna þann 1. október síðastliðinn og óttast að henni verði fleygt út á götuna á hverri stundu.
„Ég á hvorki peninga fyrir mat né húsaleigu. Ég er kvalin af áhyggjum alla daga. Ég er með svo mikinn kvíða á þessari stundu að ég get varla talað,“ sagði Elísabet við blaðamann.
Á meðan Elísabet var í sambandi við DV var hún stödd í húsnæði Félagsþjónustunnar. Hún neitaði að skrifa undir skuldabréfið og krafðist úrlausnar sinnar mála. Komið var að lokun og var hringt á lögreglu. „Lögreglan er að koma og henda mér út,“ skrifaði Elísabet þá blaðamanni, en skömmu áður hafði hún veitt símaviðtal.
Hún óttaðist þá mjög að búið væri að henda dótinu hennar á Ásbrú út en það fór ekki svo illa. Er DV náði aftur sambandi við Elísabet í kvöld kom í ljós að leigusalinn á Ásbrú hafði sýnt henni miskunn og fær hún að vera áfram í herberginu. Hún vonar heitt að fá einhverja úrlausn sinna mála eftir helgi.
Í reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð segir að venjan sé sú að hún sé veitt sem styrkur. Á því eru þó undantekningar en þetta ákvæði hljómar svo:
DV hafði samband við Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Af svörum hennar má ráða að Elísabet hafi fengið lán en ekki styrk þar sem hún megi eiga von á örorkubótum. Svarið er eftirfarandi:
„Þeir sem fá lán til framfærslu eru að öllum líkindum að bíða eftir greiðslum úr öðrum kerfum, til dæmis frá TR eða Vinnumálastofnun. Ef tekið er dæmi um manneskju sem er að bíða eftir að fá metna örorku þá fær hún lán til framfærslu, þar sem örorka er alltaf greidd aftur í tímann frá þeim tíma sem sótt er um. Framfærslulán er alltaf einn mánuður í senn en þau eru framlengd ef þörf krefur.
Varðandi þessa tilteknu upphæð þá er hún t.d. miðuð við þá einstaklinga sem ekki geta framvísað þinglýstum húsaleigusamningi. Í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð segir: Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði er 175.006 kr.
Ef ske kynni að viðkomandi fengi synjun á umsókn sinni úr öðrum kerfum breytist lánið í styrk.“