Dómur Helga Haraldssonar, rútubílstjóra, var staðfestur í Landsrétti í dag. Honum var gefið að sök að keyra rútu í fólksbifreið, með þeim afleiðingum að rútan valt sem olli andláti tveggja farþega hennar og alvarlegum líkamsmeiðslum tveggja annara farþega. Fórnarlömbin voru kínverskir ferðamenn, en slysið átti sér stað á Suðurlandsvegi, við Eldhraun, vestur af Kirkjubæjarklaustri. Það átti sér stað í desember 2017, en þá var mikil hálka og ís á vegi.
Helgi var í júní í fyrra dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundin dóm, auk þess sem hann var sviptur ökurétti, fyrir manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Sá dómur var óraskaður í Landsrétti í dag.
Rútan í málinu á ekki að hafa verið í ásættanlegu ástandi og auk þess á Helgi að hafa keyrt henni of hratt. Einhverjar umræður voru um hraða bifreiðarinnar fyrir Landsrétti, en prófessor í vélaverkfræði var fenginn sem matsmaður, til að meta hraða og ástand rútunnar. Matsmaðurinn taldi líklegt að rútan hafi verið á um það bil 92 kílómetra hraða á klukkustund, þegar að áreksturinn hafi átt sér stað. Matsmaðurinn sagði einnig að hemlar rútunnar hefðu verið í ólagi.
Fram kemur að Helgi hafi verið meðvitaður um að hemlunarbúnaður rútunnar hafi ekki verið í góðu lagi fyrir slysið. Þá kemur fram í dómi Landsréttar að framburður hans hafi ekki þótt trúverðugur. Hann mun greiða um það bil þrjár milljónir í áfríunarkostnað í málinu.