„Við í Foreldrahúsi höfum orðið varar við að stórir vinahópar myndast stundum á milli hverfa þar sem ungmenni ferðast á milli til að slást og stundum er þetta þannig að margir fara saman og ráðast á einn. Oft eru notuð þung barefli eins og skiptilyklar og hamrar sem dæmi eða önnur vopn eins og rafbyssur, kylfur, piparúði eða hnífar. Þung spörk látin dynja á höfði þess sem ráðist er á. Ofbeldisverkið er oft tekið upp á snjallsíma og sent á milli vinahópa til að hóta og eða myndum og myndböndum dreyft inn á samfélagsmiðlahópa þar sem allir geta séð, þá er búið að niðurlægja þann sem varð fyrir ofbeldinu fyrir alþjóð og er það hluti af ofbeldinu,“ segir Guðrún Ágústa Ágústsdóttir í sláandi grein á Vísir.is í dag.
Guðrún starfar hjá samtökunum Foreldrahús og er uppeldis-, fíkn- og fjölskyldufræðingur. Hún segir frá því í greininni að vopn gangi kaupum og sölum fyrir unglingana á appi þar sem auðvelt sé að kaupa hverskyns vopn og fíkniefni. Þá sé sölusíða með innfluttum vopnum opin hverjum sem er, óháð aldri.
Unglingarnir sem taka þátt í þessum óhæfuverkum eru á aldrinum 13-18 ára. Að sögn Guðrúnar eru afleiðingarnar alvarlegar:
„Til okkar leita þau ungmenni sem eru að takast á við alvarlegar afleiðingar þessara ofbeldisverka. Oftast ungir óharðnaðir strákar sem taka þátt og eða verða vitni að því þegar lúskrað er hrottalega á einstaklingi. Í þessum vinahópum á sér stað mikill hópþrýstingur. Valið stendur oft á milli þess að taka þátt eða verða sjálfur fyrir ofbeldi. Sumir drengir láta undan þrýstingi og eru ekki nægilega sterkir til að neita þátttöku. Þessir sömu drengir koma til okkar í áfalli eftir að hafa horft uppá ofbeldisverknað, þeir eiga erfitt með að sofa, þora ekki að vera einir á ferð af ótta við að verða „næstur í röðinni“. Þeir eru óttaslegnir og kvíðnir, fullir af sektarkennd og samviskubiti. Á þessu stigi málsins byrja þeir að deyfa sig með efnum til að róa taugakerfið sitt og til að slökkva á hugsunum um verknaðinn. Mál af þessu tagi vekur óhug og viljum við vekja athygli á alvarleika afleiðinga slíkra ofbeldisverka.“
Guðrún bendir á að ofbeldi valdi öllum sem hlut eiga að máli skaða, þolendum, gerendum og áhorfendum.