Móðir drengsins deildi frásögn sinni á samfélagsmiðlum í vikunni en henni og fjölskyldu drengsins var illa brugðið. Móðirin segist hafa fengið símtal frá kennara drengsins sem greindi henni frá því að tveir bekkjarbræður hans hefðu gert snöru úr reipi og hengt upp í tré. Ætlunin var svo að setja hana um háls drengsins.
Móðirin segist vera slegin yfir því að svo ung börn hreinlega viti hvað það sé að hengja fólk. „Sem betur fer hljóp hann í burtu og á þessu var tekið strax af kennurum og talað um alvarleika málsins við þá stráka sem áttu hlut að málinu og allan bekkinn.“
Móðirin segir kennarana og skólann hafa tekið vel á málinu og drengurinn hennar er rólegur yfir þessu og upplifir ekki eftirköst. Sonur hennar, sem er átta ára gamall, hefur ekki orðið fyrir einelti eða alvarlegri stríðni áður. Hún segist ekki vita hvort um óvitaskap var að ræða. Mikilvægt sé að vera vakandi yfir hugmyndum barna sem þekkja oft ekki alvarleika þess sem þau gera.
Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur hjá Sálfræði- stofu Reykjavíkur, segist ekki geta tjáð sig um umrætt mál eða einstök mál en almennt geri börn sér ekki endilega grein fyrir því hvað það þýðir að deyja eða hversu endanlegt það er.
„Ég held að yfirleitt viti börn, ef allt er í lagi hjá barninu, hvað er skaðlegt og hvað er ekki skaðlegt og vilji ekki valda skaða gagnvart öðrum. Upp að ákveðnu marki vita þau hvað má og hvað má ekki gera. Hins vegar eru börn ekki endilega farin að gera sér grein fyrir muninum á lífi og dauða eða hvað það þýðir að deyja. Það er ekki sjálfsagt að börn átti sig á að dauðinn sé óafturkræfur.“
Hún segir að almennt séð séu börn ekki að hóta alvarlegum líkamsmeiðingum. Ef svo er, sé það viðvörunarmerki. „Auðvitað getur myndast hópæsingur þar sem eitt leiðir af öðru en börn sem sýna grófa ofbeldishegðun eru oft sjálf með áföll sem valda því að þau sýna mjög ofbeldishneigða hegðun. Þá er mikilvægt að það sé kannað hvort börnin sem gera slíka hluti séu örugg í sínu umhverfi,“ segir Gabríela Bryndís.