Ríkisstjórnin hefur ákveðið að breyta ekki fyrirkomulagi skimana vegna COVID-19 á landamærunum fyrr en í fyrsta lagi eftir 1. desember nema tilefni gefist til endurskoðunar fyrr. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þessi ákvörðun byggist á stöðu faraldursins hér innanlands sem og erlendis en einnig á öðrum viðmiðum sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hefur sett fram. Meðal viðmiða Þórólfs er staða skimana fyrir sjúkdómnum í samfélaginu, alvarleiki sjúkdómsins, geta heilbrigðiskerfisins, aðrar sóttvarnarráðstafanir o.s.frv.
Fyrirkomulagið verður metið að nýju fyrir 1. desember með hliðsjón af viðmiðum sóttvarnarlæknis.
„Þá verði starfi vinnuhóps heilbrigðisráðuneytis um viðurkenningar vottorða frá tilteknum ríkjum hraðað eins og kostur er. Þá eru til skoðunar ýmsar tillögur um leiðir til að greiða fyrir ferðum um landamæri sem verða metnar af stýrihóp ráðuneytisstjóra og sóttvarnaryfirvöldum,“ segir í tilkynningu.