Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á barnalögum. Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi í svo til óbreyttri mynd en það snýr að því að heimila skráningu lögheimilis barns á tvo staði.
Segir í frumvarpinu að miklar breytingar hafi orðið á viðhorfum og stöðu foreldra á síðustu árum, og aðstöðumunur sá er verður á milli foreldra sem deila forræði en þurfa að velja hvar barnið eigi lögheimili sé ekki lengur réttlætanlegur. Sá aðstöðumunur birtist meðal annars í því að lögheimilisforeldri hafi töluvert meira að segja um hagi og daglegt líf barnsins en hitt foreldrið. Eins fái lögheimilisforeldri margvíslegan fjárstuðning frá hinu opinbera. Því sé ekki að skipta hjá umgengnisforeldri, jafnvel þó það hafi forræði til jafns við lögheimilisforeldri. Þá nýtur umgengnisforeldri ekki sömu réttinda til félagslegrar aðstoðar.
Breytingarnar sem Áslaug leggur til í frumvarpinu snúa að því að heimila að foreldrar semji um skipta búsetu barns og að réttaráhrif þess verði samkvæmt þeim samning.
Frumvarpið er talsvert flókið, enda nær breytingin til fjölda laga annarra en sjálfra barnalaga. Segir í frumvarpinu:
Þær breytingar á barnalögum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu snúa fyrst og fremst að setningu heimildar til að semja um skipta búsetu barns og réttaráhrif þess. Auk þess eru lagðar til breytingar á öðrum lögum til að ná fram tilteknum réttaráhrifum vegna skiptrar búsetu barns. Þá eru lagðar til breytingar á barnalögum sem lúta að lögbundnum forsendum samninga foreldra um forsjá, búsetu og umgengni, nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns, skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig auk nokkurra breytinga á ákvæðum er snúa að framfærslu og meðlagi.
Önnur lög sem þarfnast breytinga til að ná ætluðum réttaráhrifum eru m.a. barnaverndarlög, lög um félagslega aðstoð, hjúskaparlög, lög um húsnæðisbætur, lög um lögheimili og aðsetur, lög um tekjuskatt, lög um skráningu einstaklinga, lög um útlendinga og lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.