fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Finnst ég gagnslaus sem faðir

Fókus
Sunnudaginn 4. október 2020 22:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu föður sem glímir við fæðingarþunglyndi.

_______

Konan mín fæddi okkar fyrsta barn fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þetta átti að vera hamingjusamasti tíminn í sambandinu okkar en raunin hefur orðið önnur. Sonur okkar er með magakveisu og hefur verið afar erfiður og lítið um svefn hjá okkur foreldrunum. Konan mín hefur verið greind með fæðingarþunglyndi og er að fá hjálp vegna þess.

Hins vegar held ég að ég þjáist líka af fæðingarþunglyndi. Ég hef lesið um að karlmenn geti fengið það líka og mér er búið að líða ömurlega frá því að við komum heim af fæðingardeildinni og finnst ég ótrúlega gagnslaus sem faðir og maki. Ég þori hins vegar ekki að segja konunni minni frá því. Ég er hræddur um að hún upplifi það sem ég sé að gera lítið úr hennar vandamálum eða að ég sé að „stela“ fæðingarþunglyndinu hennar, ef það meikar eitthvað sense. Hvað er best fyrir mig að gera? Ég vil bara vera til staðar fyrir son minn og hana en finnst ég vera fastur í svartholi.

_______

Einlæg spurning

Sæll. Takk fyrir einlæga spurningu og innilega til hamingju með barnið þitt. Rannsóknir sýna að karlmenn upplifa mun meira fæðingarþunglyndi en almennt er talið. Lítið er rætt um þennan vanda og mikilvægt er að opna umræðuna. Af þeim sökum er ég þér afar þakklát fyrir þessa spurningu.

Nýjustu tölulegu upplýsingar benda til þess að um 15 prósent mæðra fái fæðingarþunglyndi og það sama á við um 12 prósent feðra. Fæðingarþunglyndi karla stafar oft af öðrum sökum en kvenna. Hjá konum spila hormónar og líffræðilegir þættir stærra hlutverk, hjá körlum geta umhverfisþættir eins og álag, spennufall, áhyggjur og streita kallað fram sambærilega líðan. Hver svo sem ástæðan er þá er þunglyndi alltaf vont, en sem betur fer er hægt að fá aðstoð við því sem við vitum að skilar árangri.

Líðan móður hefur áhrif

Mér hefur þótt það sérlega athyglisvert að parameðferð hefur borið mjög góðan árangur og stundum betri en einstaklingsmeðferð þegar kemur að þunglyndi. Sömuleiðis sýna rannsóknir í tengslum við fæðingarþunglyndi að líðan móður eftir fæðingu getur haft veruleg áhrif á líðan föður. Þá hefur fæðingarþunglyndi feðra marktæk áhrif á tengslamyndun beggja foreldra við barnið. Allt undirstrikar þetta hvað parsambandið er voldugt og hvað makinn er í góðri stöðu til þess að hafa áhrif á líðan hins.

„Hamingjusamasti tíminn“

Þitt dæmi rímar mjög vel við þessar staðreyndir. Konan þín hefur fundið fyrir fæðingarþunglyndi, barnið ykkar er óvært og með kveisu og tíminn sem þú sást fyrir sem „hamingjusamasta tíma lífsins“ er að valda þér vonbrigðum. Þetta eru allt breytur sem hafa bein tengsl við þína líðan. Það sem þó er afar mikilvægt að líta til í þessu samhengi er að þú vilt helst ekki vekja athygli á vanda þínum eða leita þér aðstoðar. Ástæðuna segir þú vera að þú viljir vera til staðar fyrir son þinn og konu.

En elsku kallinn minn, nákvæmlega þess vegna ættir þú einmitt að ræða þetta við konuna þína. Það getur vel verið að þið séuð að hafa „smitandi“ áhrif hvort á annað og því fyrr sem þið bæði, helst sameiginlega, fáið aðstoð því fyrr mun ykkur báðum líða betur. Þú ert að gera hárrétt fyrir þig, konuna þína og barnið ykkar með því að segja frá, nýta parsambandið til góðs og fá hjálp. Finnst þér ekki magnað hvað við erum oft í góðri trú um að við séum að gera góðverk og vernda okkar nánustu á meðan við í raun erum að grafa dýpri skurð?

Getur gefið henni kraft

Þó svo að konan þín finni fyrir þunglyndi sjálf og sé mögulega ekki mikill bógur í því ástandi til þess að hjálpa þér þá getur það samt gefið henni kraft að til hennar sé leitað. Það er enginn að biðja hana eða strákinn ykkar að taka vanlíðan þína eða taka sér minna pláss með sína líðan heldur ertu að ítreka að þið fáið öll viðeigandi aðstoð.

Við meðhöndlun á fæðingarþunglyndi hafa verið notaðar margvíslegar aðferðir og stundum þarf fólk að prófa nokkrar leiðir til þess að finna það sem virkar best fyrir sig. Í ykkar tilfelli finnst mér líklegt að kveisueinkenni sonar ykkar séu að hafa mikil áhrif. Manneskjan er „forrituð“ með þeim hætti að okkur þykir óþægilegt að hlusta á barnsgrát, einmitt til þess að við bregðumst við og leitum allra leiða til að hugga og vernda barnið.

Ég veit að þið eruð örugglega búin að prófa ýmislegt í örvæntingu ykkar, en getur verið að heilsugæslan, barnalæknir, Bowen-tækni, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð eða malt-extract dropar geti hjálpað? Ég er enginn sérfræðingur í kveisum en allt framangreint hef ég heyrt að geti í sumum tilfellum gefið góða raun. Þá er talað um að ungbörn verði oftast betri í kringum þriggja mánaða aldurinn svo mögulega eruð þið að nálgast þann þröskuld. Stundum dugar að taka á svona umhverfisþáttum svo líðan þeirra sem þjást af þunglyndi skáni.

Þiggið alla hjálp

Þá veit ég til þess að heilsugæslan er farin að líta miklu meira til fæðingarþunglyndis beggja foreldra. Sumar heilsugæslur skima fyrir líðan bæði nýbakaðra mæðra og feðra og ef eftir aðstoð er leitað get ég ekki ímyndað mér annað en að ykkur mæti gott viðmót í ungbarnaeftirlitinu. Einnig gæti heimilislæknir ráðlagt ykkur í tengslum við lyfjameðferð og ég veit að sálfræðingar, foreldragrúppur og námskeið í hugrænni atferlismeðferð eru í boði á mörgum stöðum

Í guðs bænum, þiggið þetta allt. Svo mæli ég alltaf með parameðferð, hvort sem vandinn liggur í parsambandinu eða sem sálrænn vandi annars aðilans. Sennilega virkar eitthvað af framangreindu og þá munt þú aldrei sjá eftir því að hafa ráðist í þessa vegferð. Þú ert að hjálpa þér, syni þínum og konunni þinni með því að stinga á kýlið. Með því að senda mér þessa spurningu ertu búinn að taka fyrsta skrefið. Restin verður leikur einn. Ég held með ykkur!

______

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Stjörnurnar skinu skært á rauða dregli Golden Globes

Stjörnurnar skinu skært á rauða dregli Golden Globes
Fókus
Í gær

Andvirði gjafapokans á Golden Globes er 1 milljón dala – Norðurljósaferð, andlitslyfting, ferð til Balí og Frakklands

Andvirði gjafapokans á Golden Globes er 1 milljón dala – Norðurljósaferð, andlitslyfting, ferð til Balí og Frakklands
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar