fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Dómur fallinn í máli konu sem ákærð var fyrir að ræna látinn föður sinn – Ekki var allt sem sýndist

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 2. október 2020 14:32

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag yfir 59 ára gamalli konu sem ákærð var fyrir að fjárdrátt frá nýlátnum föður sínum. Var hún sökuð um að hafa í heimildarleysi millifært fé af bankareikningi föður síns rétt eftir andlát hans. Faðir konunnar lést 23. október árið 2015 en konan tilkynnti andlát hans til sýslumanns þann 30. október. Í millitíðinni millifærði hún samtals 2,2 milljónir króna af bankareikningi hans í nokkrum færslum.

Þrír bræður konunnar kærðu háttsemi hennar til lögreglu og sökuðu hana um fjárdrátt. Auk sakaákærðu héraðssaksóknara í málinu gerðu þeir skaðabótakröfu á hendur konunni.

Eins og við greindum frá  þann 4. september hugðist blaðamaður DV vera viðstaddur aðalmeðferð málsins en dómari ákvað í upphafi hennar að verða við kröfu lögmanns hinnar ákærðu um að þinghaldið yrði lokað. Þurfti blaðamaður því að yfirgefa réttarsalinn. Ástæða lokunar þinghaldsins voru viðkvæmar upplýsingar um kynferðisbrot sem kæmu fyrir í málsmeðferðinni. Í dómnum sem DV hefur undir höndum, en hann hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna, er tvisvar greint frá því að konan hafi sagst hafa orðið fyrir kynferðisbroti en ekki er farið nánar út í það.

Faðir konunnar bað hana um að sjá um útförina

Í aðalmeðferð kom fram að er faðirinn var dauðvona bað hann dóttur sína um að dveljast hjá sér og sjá um útför sína að honum látnum. Konan bjó á þessum tíma í Noregi en kom til Íslands til að uppfylla óskir föðurins.

Lagði hún fram reikninga sem sýndu útlagðan útfararkostnað upp á rétt tæplega 900 þúsund krónur. Annar áfallinn kostnaður, 1,3 milljónir, mun hafa varðað ferðir konunnar til og frá Noregi og uppihald hennar en hún lagði ekki fram gögn um þann kostnað.

Fram kom í vitnaleiðslum að bræðurnir hefðu ekki sett sig upp á móti því að systir þeirra annaðist útförina en þeim hafi blöskrað upphæðir úttekta hennar af bankareikningi föðurins og því kært hana til lögreglu. Ekki voru teknar skýrslur af systkinunum hjá lögreglu vegna málsins og sagðist konan ekkert hafa heyrt frá lögreglu vegna þess.

Í dómnum segir meðal annars:

„Vitnið F, bróðir ákærðu, kvaðst hafa lagt fram kæru ásamt þremur bræðrum sínum og lýsti hann ástæðum kærunnar. Vitnið staðfesti að hafa haft samband við sýslumann og lýst áhyggjum af dánarbússkiptunum og efasemdum um gjörðir ákærðu að undanförnu. Spurður um það hvort hann hefði vitað af millifærslum ákærðu, sem um ræðir í ákærunni, lýsti vitnið því að hús foreldra þeirra hefði verið selt í því skyni að gamli maðurinn hefði eitthvert skotsilfur í ellinni, eins og vitnið hafði eftir ákærðu. Hann lýsti því sem þá hefði komið í ljós varðandi reikning föður þeirra. Hann kvað samband þeirra systkina hafa verið gott á þessum tíma, en lýsti jafnframt efni símtals þar sem ákærða hefði borið fram ásakanir um kynferðisbrot sem hún hefði orðið fyrir. Hann kvað ákærðu hafa verið búna að taka út af reikningum dánarbúsins og hún hefði greitt útfararkostnað. Ákærða hefði síðan lagt fram skýrslu um það hvernig hún hefði ráðstafað peningunum og þá hefði komið í ljós að rúmur helmingur fjárhæðarinnar hefði verið  ferðakostnaður og uppihald ákærðu. Þeir bræður hefðu talað um að þeir gætu ekki látið ákærðu komast upp með þetta.

Vitnið E bróðir ákærðu, lýsti aðdraganda kæru á hendur henni þannig að hún hefði tæmt bankareikning föður þeirra eftir andlát hans. Þetta hefði orðið til þess að dánarbúið sætti opinberum skiptum.“

Vitnisburður dóttur og unnusta hinnar ákærðu voru henni mjög í hag en þau vitnuðu um að konunni hefði verið falið að koma til Íslands, vaka yfir föður sínum á dánarbeði og sjá um útför hans.

Þegar konan var spurð hvers vegna hún teldi að bræður hennar hefðu lagt fram kæru á hendur henni sagðist hún ekki geta skýrt það öðruvísi en með því að vísa til atburðar sem hún lýsti og kvað skýra andúð þeirra í sinn garð. Má leiða getum að því að hér sé vísað til meints kynferðisbrots sem konan segist hafa orðið fyrir en það er þó ekki staðfest í texta dómsins.

Konan sýknuð

„Ekki verður annað ráðið af framburði ákærðu og af vitnisburði bræðra hennar en að einhvers konar þegjandi samkomulag hafi verið um það að ákærða annaðist útför
föður þeirra og greiddi útfararkostnað,“ segir í niðurstöðu dómarans, Guðjóns St. Marteinsson, en hann telur að konan hafi ekki gerst sek um fjárdrátt. Var hún því sýknuð. Ennfremur var öllum einkaréttarkröfum bræðranna vísað frá. Sakarkostnaður greiðist allur úr ríkissjóði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?