Árið 1973, í kjölfar elgossins í Heimaey, tóku nokkrir Eyjamenn sig til og héldu Eyjakvöld á skjám allra landsmanna. Eyjakvöld þetta var framhald af Eyjakvöldi sem haldið hafði verið í samvinnu við skátana í Vestmannaeyjum á árunum fyrir gos. Kvöldþætti þessum var stýrt af engum öðrum en Árna Johnsen. Í þættinum komu margir þekktir Eyjamenn fyrir, þó sumir þeirra hafa ekki þá verið orðnir jafn þekktir og þeir síðar urðu. Þannig má til dæmis sjá glitta í Bjartmar Guðlaugs slá á trommurnar í þættinum.
Þættirnir urðu tveir. Einn sýndur 1973 og hinn 1974. Þátturinn frá 1973 var endursýndur árið 1980. Á árunum á milli 1973 og 1980 bárust VHS tæki á heimili landsmanna og fór því svo að þátturinn sem var endursýndur árið 1980 var tekinn upp á þau tæki. Örlög þáttarins frá 1974 urðu hins vegar önnur. Hann var ekki settur á dagskrá RUV aftur og var þannig aldrei tekinn upp á VHS spilurum almennings, og varðveittist því ekki jafn vel og fyrri þátturinn. Raunar virðist sá þáttur hafa gleymst og horfið með öllu.
Það var raunar ekki fyrr en Eyjamaðurinn, og þátttakandi í sjálfum þáttunum, Einar Hallgrímsson, sat fyrir framan sjónvarpið eitt kvöldið á 21. öld sem leitin hófst á ný. „Þetta var þannig að það var mynd um hann Palla Steingríms kvikmyndagerðamann sýnd í sjónvarpinu. Þar kom fram atriði úr þessum þætti sem ég kannaðist við,“ sagði Einar í samtali við blaðamann DV, „þá sá ég að þessi þáttur hlyti að vera einhverstaðar til.“
Einar leitaði þá til Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Eyjamanns og fyrrum útvarpsstjóra. „Hann bað ég um að athuga hvort þessi þáttur væri til í safninu hjá Páli,“ sagði Einar. Þættirnir hafa óneitanlega mikið sagnfræðilegt gildi og segir Einar mikið af Eyjaandlitum sjást. „Mikið af þessu fólki er nú fallið frá, en sumir eru nú enn á lífi og ættu að hafa gaman af þessu.“
Einar fékk að lokum upptökuna senda til sín.
Í þættinum er spiluð Eyjatónlist og er dagskránni stýrt af, sem fyrr segir, Árna Johnsen. Þátturinn týndi hefur nú verið settur á Youtube í heild sinni og má sjá hann hér að neðan.