Shiraishi er einnig ákærður fyrir að hafa hlutað líkin í sundur og geymt þau í frysti. Hann hefur ekki mótmælt því að hann hafi drepið níu manns.
„Þetta er allt hárrétt,“
sagði hann fyrir dómi á miðvikudaginn að sögn NHK-sjónvarpsstöðvarinnar. Japanskir fjölmiðlar segja að hann sé einnig ákærður fyrir nauðganir.
Saksóknari segir að Shiraishi hafi notað Twitter til að komast í samband við fórnarlömb sín sem voru á aldrinum 15 til 26 ára. Þau eru sögð hafa skrifað á netið að þau hefðu í hyggju að taka eigið líf. Hann sagðist vilja hjálpa þeim og deyja við hlið þeirra.
Ef Shiraishi verður sakfelldur verður hann væntanlega dæmdur til dauða en í Japan eru dauðadæmdir hengdir.
Verjandi hans krefst þess að hann verði dæmdur eftir þeim ákvæðum sem snúa að „drápi með samþykki“ en þar er refsiramminn að hámarki sjö ára fangelsi.
Í samtali við dagblaðið Mainichi Simbun sagði Shiraishi að hann sé ósammála verjanda sínum og að hann vilji að saksóknarar skilji að hann hafi drepið fólkið „án samþykkis þess“.
Hann var handtekinn fyrir þremur árum þegar lögreglan var að rannsaka hvarf 23 ára konu. Hún hafði skrifað á Twitter að hún ætlaði að taka eigið líf. Eftir að tilkynnt var um hvarf hennar fékk bróðir hennar aðgang að Twitterreikningi hennar þar sem hann fann grunsamleg samskipti hennar við Shiraishi, það kom lögreglunni á slóð hans.
Þegar lögreglan réðst til inngöngu á heimili hans haustið 2017 kom í ljós að hann bjó í sannkölluðu hryllingshúsi. Um 240 líkamshlutar voru í frystinum og verkfærakassa.