Af hverju verða sumir miklu veikari af COVID-19 en aðrir? Þessari spurningu hafa vísindamenn reynt að svara síðustu mánuði. Athyglin hefur meðal annars beinst að litningi 3. Í sumar var því slegið fast í stórri alþjóðlegri rannsókn að þetta afbrigði eykur líkurnar á að leggja þurfi smitaða inn á sjúkrahús og að þeir eigi erfitt með andardrátt. Niðurstöður nýrrar sænsk/þýskrar rannsóknar sýna að þetta gen líkist mjög samsvarandi geni úr um 50.000 ára gömlum Neanderdalsmanni sem fannst þar sem nú er Króatía.
Þetta afbrigði barst í nútímamanninn úr Neanderdalsmönnum þegar tegundirnar blönduðust fyrir um 60.000 árum. Hugo Zeberg, hjá Karólínsku stofnunni í Svíþjóð, segir þeir sem séu með þetta afbrigði séu allt að þrisvar sinnum líklegri til að enda í öndunarvél ef þeir smitast af kórónuveirunni sem veldur COVID-19.
Hann rannsakaði þetta ásamt Svante Pääbo hjá Max Planck stofnuninni í Þýskalandi. Niðurstöður rannsóknar þeirra hafa verið birtar í vísindaritinu Nature. Aftonbladet skýrir frá þessu.
Þeir geta ekki sagt til með fullri vissu af hverju þessi gen úr Neanderdalsmönnum auka líkurnar á alvarlegum veikindum en sýndu fram á mikinn mun á milli heimsálfa hvað varðar útbreiðslu gensins. Í suðurhluta Asíu er þetta gen í um helmingi allra og í Evrópu í sjötta hverjum. Í austurhluta Asíu og nær allri Afríku er þetta gen eiginlega ekki að finna í fólki.
„Það er sláandi að arfur frá Neanderdalsmönnum hafi svo hörmulegar afleiðingar í þessum heimsfaraldri. Af hverju það er, verður að rannsaka sem fyrst,“
sagði Svante Pääbo.