Sjónvarpsþátturinn Stundin okkar hefur aftur göngu sína á RÚV á sunnudagskvöldið kl 18. Þátturinn er elsti sjónvarpsþáttur landsins og hefur verið sýndur samfleytt í 54 ár samkvæmt fréttatilkynningu sem Ríkísútvarpið sendi frá sér í dag.
„Eins og í fyrra eru það eingöngu krakkar sem stýra þættinum sem er byggður upp af fjölbreyttum smáseríum,“ segir í tilkynningunni.
Aðalkynnar þáttarins eru Helena Lapas, Imani Ósk Biallo, Kári Hlíðberg, Tómas Aris Dimitropoulos sem öll eru að stíga sín fyrstu skref í sjónvarpsþáttagerð. Hin ýmsu föstu innslög verða í þættinum og má þá helst nefna:
Víkingaþrautin: Leikin þáttasería um fjóra krakka sem eru að vinna skólaverkefni á Þjóðminjasafninu þegar þau leysa óvart ævafornan víking úr álögum. Allt þetta tengist dularfullu armbandi sem er til sýnis á safninu og áður en þau vita af eru þau lent í háskafullu ævintýri.
Frímó: Fjörug spurninga- og þrautakeppni. Þar mætast tvö lið sem þurfa að leysa hversdagslegar þrautir eins og að kasta frisbídisk í dósir og svara spurningum.
Jógastund: Krakkar gera einfaldar jógaæfingar sem áhorfendur heima í stofu geta gert með.
Stundin rokkar: Nokkrir krakkar búa til rokkhljómsveit og æfa og flytja íslenskt rokklag og semja sitt eigið.
Matargat: Krakkar elda og baka girnilegan og gómsætan mat. Allt einfalt sem krakkar geta gert heima.
Dans: Stundin okkar kynnir sér fjölbreytta dansstíla í vetur, eins og hipphopp, djassballett, afró og samkvæmisdansa.
Hugarflug: Hrannar er 5 ára með fjörugt ímyndunarafl og alltaf að bralla eitthvað sniðugt í skúrnum sínum.