fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

ASÍ mótmælir lækkun tryggingagjalds

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 29. september 2020 12:34

Drífa Snædal Myndi: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

ASÍ hefur brugðist við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að stuðla að friði á vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru í átta liðum og setur ASÍ sig mest upp á móti einum þeirra, sem snýr að lækkun tryggingagjalds út árið 2021.

ASÍ bendir á að tryggingagjald standi undir mikilvægum innviðum á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingar, og það hafi þegar verið lækkað um 0,5% á árinu 2019. Að öðru leyti tekur ASÍ vel í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, en yfirlýsing sambandsins vegna málsins er hér að neðan.

 

Viðbrögð ASÍ vegna yfirlýsingar ríkisstjórnar í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamnings 

Ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu í dag í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins. Yfirlýsingin er sett fram í kjölfar þess að Samtök atvinnulífsins hafa kynt undir ófriði á vinnumarkaði með því að boða til atkvæðagreiðslu um að slíta Lífskjarasamningnum á afar hæpnum forsendum.

ASÍ bendir á að í yfirlýsinguna skortir heildarsýn um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til vegna Covid-kreppunnar. Alþjóðlegum stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OECD ber saman um að lykilverkefnið sé að tryggja afkomuöryggi fólks. Með því verði komið í veg fyrir að kreppan verði djúp og langvinn. ASÍ fer því fram á að samhliða þessari yfirlýsingu gefi stjórnvöld út vilyrði um að hækka grunnbætur atvinnuleysistrygginga, sem nú eru 289.510 krónur, og að þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks verði hækkað.

Þá setur ASÍ fram skýlausa kröfu um að í frumvarpi til starfskjaralaga verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar. Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur komist upp með að stela launum fólks og með ólíkindum að stjórnvöld hiki við að leiða í lög tæki sem raunverulega bíta gegn svo siðlausu athæfi.

Með yfirlýsingunni eru lagðar til aðgerðir í átta liðum. Sumar þeirra bera þess merki að vera lítt úthugsaðar og fer ASÍ fram á að koma að útfærslu þeirra. Viðbrögð ASÍ við einstaka aðgerðum fara hér á eftir:

  1. „Allir vinna“ framlengt
    ASÍ fagnar þeirri ákvörðun að framlengja átakið „Allir vinna“. Það hefur hvetjandi áhrif á bæði atvinnustigið og hagkerfið.
  2. Tímabundin lækkun tryggingagjalds
    ASÍ mótmælir fyrirhugaðri lækkun tryggingagjalds. Tryggingagjald er nánast eini skatturinn sem fyrirtæki greiða og hefur þegar lækkað um samtals 0,5% árin 2019 og 2020. Tryggingagjaldið stendur undir mikilvægum innviðum á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingar, sem hvoru tveggja gegnir lykilhlutverki í að tryggja afkomuöryggi fólks. Lækkun tryggingagjalds þvert á atvinnugreinar mætir ekki kröfu ASÍ um sértækar aðgerðir til að mæta sértækum vanda. Verði þessi leið farin þurfa stjórnvöld að brúa bilið. ASÍ áréttar að það kemur alls ekki til álita að fresta lengingu fæðingarorlofs eða skerða greiðslur í fæðingarorlofi.
  3. Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins
    ASÍ hefur lagt áherslu á sértækar aðgerðir til að mæta þeim sértæka efnahagslega vanda sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér. Því er jákvætt að hér sé miðað að því að beina stuðningi að rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins. Tillögurnar eru hins vegar óútfærðar og leggur ASÍ þunga áherslu á að koma að útfærslunni. ASÍ gerir ráð fyrir að þessar aðgerðir eigi öðru fremur að koma til móts við litla rekstraraðila og einyrkja sem hafa orðið einstaklega illa úti, ekki eingöngu innan ferðaþjónustu heldur líka í tengdum greinum, í listum, menningu, tæknigreinum o.fl.
  4. Skattaívilnanir til fjárfestinga
    ASÍ fellst á skattaívilnanir til grænna umbreytinga og til að uppfylla loftslagsmarkmið en leggur áherslu á að skattaívilnanir verði bundnar við það en ekki við óljós markmið um samkeppnishæfni atvinnulífsins. ASÍ lýsir yfir furðu með þá tillögu að stjórnvöld hafi forgöngu um að hvetja til hlutabréfakaupa almennings. Ef hér er átt við að veita skattafslætti í tengslum við hlutabréfakaup þá mótmælir ASÍ því harðlega enda munu þeir afslættir renna til hinna efnameiri í samfélaginu.
  5. Aukin áhersla á nýsköpun og matvælaframleiðslu
    ASÍ fagnar aukinni áherslu á nýsköpun og matvælaframleiðslu en leggur áherslu á að eiga aðkomu að útfærslu á tillögum um „hagkvæmni og skilvirkni“ í matvælaframleiðslu. ASÍ minnir á tillögu sína um nýsköpunarsjóð sveitarfélaga sem yrði úthlutað úr hlutfallslega mest til þeirra sveitarfélaga sem hafa orðið verst úti í kreppunni, sjá nánar í útgáfu ASÍ Rétta leiðin: frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll.
  6. Úrbætur í skipulags-og byggingamálum
    ASÍ telur mikilvægt að ráðast í margar af þeim úrbótum sem greindar eru í niðurstöðum átakshóps í húsnæðimálum. ASÍ geldur hins vegar varhug við tillögum sem lúta að því að draga úr samkeppnishindrunum á mörkuðum. Þótt slíkt kunni að hafa yfir sér jákvætt yfirbragð lúta slíkar tillögur oft að því að draga úr lögum og reglum sem eru sett til verndar almenningi og umhverfinu.
  7. Umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði
    ASÍ er tilbúið til samvinnu um grænbækur um lífeyrismál annars vegar og um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála hins vegar.
  8. Frumvörp sem styðja Lífskjarasamninginn lögð fram
    Hér er um að ræða frumvörp sem áður hafa verið gefin fyrirheit um í tengslum við Lífskjarasamninginn. ASÍ setur fram þá skýlausu kröfu að í frumvarpi til starfskjaralaga verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar. Sú aðgerð kostar ríkissjóð ekki krónu en mun draga úr kostnaði stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera við þung málaferli vegna launaþjófnaðar. Verði ekki kveðið á um févíti stendur upp á stjórnvöld og SA að svara því hvers vegna þau slá sameiginlega skjaldborg um launaþjófa. ASÍ áréttar fyrri tillögur sínar um afnám verðtryggingar og hvetur stjórnvöld til að hverfa frá þeim undanþágum sem hafa verið til umræðu í tengslum við frumvarp um vexti og verðtryggingu. Þá áréttar ASÍ mikilvægi þess að frumvarp um kennitöluflakk fari í gegnum Alþingi hratt og örugglega og frumvarp til húsaleigulaga sömuleiðis.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði