KR og Fylkir áttust við í Pepsi Max-deild karla í gær. Fylkir vann leikinn eftir dramatískar lokamínútur en liðið fékk víti eftir að hönd Beitis Ólafssonar, markmanns KR, fór í Ólaf Inga Skúlason, leikmann og aðstoðarþjálfara Fylkis. Beitir fékk rautt spjald í kjölfarið, Fylkir skoraði síðan úr vítinu og vann leikinn.
Atvikið hefur vakið mikla athygli og hefur fólk rifist mikið um hvort það hefði átt að dæma vítapyrnu eða ekki. Ólafur Ingi segir að atvikið og eftirmálar þess hafi áhrif á fjölskyldu sína en það kemur fram í viðtali sem sýnt var í Sportpakkanum á Stöð 2. „Ekki spurning,“ segir Ólafur um hvort réttan dóm var að ræða. „Myndirnar tala sínu máli. Hann veit af mér og er með hendurnar í ónáttúrulegri stöðu. Hann gerir sig bara sekan um að gefa mér högg og fær réttilega dæmt á sig víti og rautt spjald.“
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, fór ófögrum orðum um Ólaf eftir leikinn í gær og talaði um fíflagang af hans hálfu. Hann leitar með höfuðið í höndina á Beiti þegar hann er löngu búinn að kasta boltanum út. Hann er bara með leikrit og hann hefur gert þetta oft áður og hann er að reyna að eyðileggja leikinn á þennan hátt. Þegar lið vinna á þennan hátt þá er þetta bara svindl og svínarí. Það er ofboðslega leiðinlegt að horfa upp á þetta,“ sagði Rúnar í samtali við Vísi eftir leikinn.
Ólafur segir að ummæli Rúnars hafi komið honum á óvart. Ég þekki Rúnar ekkert rosalega vel en hann virðist venjulega vera rólegur og yfirvegaður maður. Ég á ekki erfitt með að taka svona ummælum. En það er svolítið mikið þegar maður þarf að útskýra fyrir börnunum sínum að pabbi sé ekki svindlari. Ég á þrettán ára stelpu sem spilar fótbolta og auðvitað gæti þetta haft áhrif á hana,“ sagði Ólafur. „Mér er svo sem alveg sama hvað Rúnari finnst um mig. Það hafa allir sínar skoðanir á fólki. En ég held að maður þurfi aðeins að passa sig þegar maður talar á opinberum vettvangi. Mér finnst ekki í lagi að láta svona orð falla. Og þetta er honum svolítið til skammar.“