fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Kostar 305 milljónir að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 26. september 2020 16:15

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, tilkynnti í febrúar um áform sín um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands næstu áramót.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greiningarvinna í tengslum við lokun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands virðist í mýflugumynd og biðlar starfsfólk miðstöðvarinnar til ráðherra um að endurskoða ákvörðun sína um að leggja miðstöðina niður. Í gögnum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að vilji sé til að færa ákveðin verkefni miðstöðvarinnar til einkaaðila en jafnframt fjölga starfsfólki með sérfræðiþekkingu á nýsköpun í ráðuneytinu.

„Við höfum ekki fengið rökstuðning fyrir því að það sé besta niðurstaðan fyrir nýsköpun á Íslandi að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð,“ segir Kjartan Due Nielsen, verkefnisstjóri hjá miðstöðinni og talsmaður starfsmanna.

Nýsköpun og rannsóknir eru ein af sjö megináherslum sitjandi ríkisstjórnar, nýsköpun og uppbygging er eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í stjórnarsáttmálanum segir: „Ríkisstjórnin mun vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi.“

Ákveðið fyrir COVID

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er atvinnuvega og nýsköpunarráðherra og í október á síðasta ári kynnti hún nýsköpunarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 og sagði hún við það tækifæri: „Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn.“ Það var síðan í febrúar á þessu ári sem hún tilkynnti fyrirhugaða lokun Nýsköpunarmiðstöðvar. Fyrsta COVID-smitið greindist á Íslandi í lok febrúar og þessi fyrirætlun var því ákveðin áður en faraldurinn fór að hafa áhrif á samfélagið með tilheyrandi atvinnuleysi.

Starfsfólk miðstöðvarinnar hefur verið afar gagnrýnið á fyrirhugaða lokun, og ekki síst skort á samráði og samtali. Í júlí sendi það frá sér ályktun þar sem fram kom að það telur það mikið áfall fyrir nýsköpun í landinu ef Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður. Þá hefur starfsfólk ítrekað óskað eftir skýringum á ákvörðun ráðherra.

Mikill lokunarkostnaður

DV óskaði eftir þeim gögnum sem varpa ljósi á þá greiningarvinnu sem fór fram innan ráðuneytisins og liggur til grundvallar ákvörðun ráðherra. Geimvísinda- og tæknistofnun Íslands hafði áður óskað eftir þessum gögnum en beiðninni var hafnað, líkt og beiðni DV, á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða. DV hefur nú hins vegar undir höndum tvö skjöl úr ráðuneytinu, dagsett 20. ágúst; annars vegar „Áform um lagasetningu“ og svo „Mat á áhrifum lagasetningar“ þar sem fjallað er um fyrirhugaða lokun Nýsköpunarmiðstöðvar. Ráðherra mun leggja fram frumvarp þess efnis á haustþingi.

Gögnin sem DV hefur undir höndum.

Í gögnunum kemur fram: „Sett verða ný lög um opinberan stuðning við nýsköpun sem fella brott lög nr. 75/2007 og NMÍ þannig lögð niður sem sérstök ríkisstofnun og verkefni hennar flutt til annarra aðila. Þá verður kveðið á um stofnun félags í samstarfi við háskólasamfélagið sem sinnir rekstri frumkvöðla-, rannsóknar- og tækniseturs. Í ákvæðum til bráðabirgða verður kveðið á um nánari útfærslu niðurlagningar, tilfærslu eigna og skyldna sem og atriði sem varða starfsmenn stofnunarinnar.“

Bein framlög úr ríkissjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar eru nú rúmlega 700 milljónir króna árlega. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins, annars vegar vegna lokunar stofnunarinnar og verkefna hennar sem flytjast í annað form verði 655 milljónir króna á árinu 2021, þar af er lokunarkostnaðurinn 305 milljónir. Í frumvarpi verður gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði verði 350 milljónir árið 2020.

Ekki endanleg afstaða

Í gögnunum segir enn fremur: „Með frumvarpinu verður stofnað félag í samvinnu ríkis og háskólasamfélagsins um rekstur frumkvöðlaseturs og tækni- og rannsóknarseturs … Vinnuheiti slíks félags er Nýsköpunargarðar og lagt upp með að starfsemin fari fyrst um sinn fram í núverandi húsnæði NMÍ í Keldnaholti en flytjist í Vatnsmýri innan tveggja ára.“

Í opnu bréfi sem starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar sendi Þórdísi Kolbrúnu í síðustu viku skorar það á hana að endurskoða ákvörðun sína og var vísað í langþráðan fund starfsfólks með ráðherra þann 10. september: „Fundurinn staðfesti einnig að ráðuneytið er ekki búið að taka endanlega afstöðu hvernig verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar verði best hagað og sé tilbúið í frekari umræður og færa hlutina í þann farveg sem er best fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Við fögnum því.“

Þá er í bréfinu bent á að frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar hafi „ungað út“ fjölda sprotafyrirtækja, í dag séu 400 þeirra enn starfandi og velta þau samtals um 8 milljörðum króna. „Það á að leggja niður þjónustu gagnvart frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum sem eru að taka sín fyrstu skref, án þess að nokkuð komi í staðinn. Þessir aðilar hafa ekki efni á því að borga háar upphæðir fyrir ráðgjöf og aðstöðu og því hefði þetta þau áhrif að færri nýsköpunarfyrirtæki væru stofnuð,“ segir þar.

Ríkir hagsmunaárekstrar

Áform ráðherra kveða á um að Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins sem heyrir undir Nýsköpunarmiðstöð verði lögð niður og samkeppnissjóður verði stofnaður í staðinn. Kjartan segir þetta áhyggjuefni: „Það er alvarlegt að það eigi að leggja niður byggingarannsóknir og stofna samkeppnissjóð í staðinn því í byggingum liggur stærstur hluti eigna almennings og sífellt er algengara að fólk verði fyrir bæði fjárhags- og heilsutjóni vegna rakaskemmda og myglu í húsum. Rannsóknir sem eru gerðar út frá hagsmunum almennings og skila kannski ekki arði. Einkamarkaðurinn getur ekki verið drifkraftur þessara rannsókna, einfaldlega vegna mjög ríkra hagsmunaárekstra.“

Björn Jónsson, annar stofnandi frumkvöðlafyrirtækisins Hefring ehf. sem vinnur að þróun snjallsiglingakerfis fyrir báta og skip, segir sitt fyrirtæki hafa fengið margvíslegan stuðning frá Nýsköpunarmiðstöð. Hann tekur ekki afstöðu til þess hvort leggja eigi miðstöðina niður eður ei en leggur áherslu á að óvissunni um framhaldið verði eytt. „Það er nægilega mikil óvissa almennt hjá sprotafyrirtækjum og frumkvöðlastarfsemi til að ekki sé bætt á það þegar óvíst er um afdrif helsta baklands nýsköpunar á landinu.“

Þessi grein birtist fyrst í helgarblaði DV 18. september.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð