Ný og umfangsmikil rannsókn, byggð á gervihnattarmyndum, sýnir að Norðurheimskautið hefur breytt um lit. Frá 1985 til 2016 varð þriðjungur svæðisins grænni en áður. Þar sem gróður gat ekki vaxið áður er nú gróður. Einnig bendir margt til að tegundum fjölgi og að plönturnar verði stærri en áður. Þetta á sérstaklega við um suðurhluta svæðisins.
Á helmingi þeirra svæða, sem voru rannsökuðu, sáust engar breytingar. En á þeim svæðum sem eru orðin grænni hefur náttúran breyst. Þetta er sérstaklega sýnilegt á túndrunum á suðurhluta svæðisins. Túndrur eru einstök svæði þar sem stór spendýr eins og moskusuxar og hreindýr lifa á ísköldum sléttum.
Þessar breytingar geta haft í för með sér að tré fari að dafna norðar en áður. Þá skreppur túndran saman sem því nemur og skógur myndast. Mörg þeirra dýra sem eru sérhæfð til að lifa á túndrunum munu ekki geta bjargað sér í skógum og því verður um leið breyting á dýralífi. Þessar breytingar munu einnig hafa áhrif á íbúa svæðisins, til dæmis hreindýrahirða sem fylgja hreindýrahjörðum eftir á ferð þeirra um túndrurnar.