Videnskab.dk skýrir frá þessu. Í rannsókninni voru taugakerfi 59 sjúklinga, sem höfðu nýlega verið greindir með Parkinsonssjúkdóminn eða þjáðust af truflunum á REM-svefni en höfðu ekki verið greindir með Parkinsonssjúkdóminn, rannsökuð.
Hjá þeim sem þjást af REM-svefntruflunum eyðileggjast taugafrumur í heilastofninum. Það veldur því að fólk hreyfir sig mikið þegar það sefur. Það á líka til að hrópa og sparka. Stór hluti þeirra, sem þjáist af þessum sjúkdómi, fær síðar Parkinsonssjúkdóminn.
Í rannsókninni kemur fram að hjá sjúklingum með Parkinsonssjúkdóminn, sem ekki glímdu við svefntruflanir, voru það aðeins heilafrumurnar sem voru skemmdar. Sjúkdómurinn átti því upptök sín í heilanum. Hjá sjúklingum, sem ekki voru með Parkinsonssjúkdóminn en glímdu við svefntruflanir, voru heilafrumurnar í lagi en taugakerfið í hjartanu og þörmunum var mjög skaddað. Sjúkdómurinn átti upptök sín í líkama þeirra og hafði ekki enn borist til heilans.
Sjúklingar með Parkinsonssjúkdóminn, sem höfðu glímt við svefntruflanir á árunum áður en þeir greindust, voru með ónýtar taugafrumur í hjarta, þörmum og heila.