Í þættinum er rætt við nokkra „preppers“ og þar á meðal Ulrich og Björk kemur aðeins við sögu. Ulrich segist hafa verið „prepper“ í um 20 ár. Hann segir að „preppers“ lifi nokkuð hefðbundnu lífi en séu þó undir hamfarir búnir og geti því vonandi komist betur í gegnum þær en aðrir.
Hann segir einnig í þættinum að hann hafi verið undir heimsfaraldur kórónuveirunnar búinn og hafi gert sínar varúðarráðstafanir. Hann keypti meðal annars gasgrímur fyrir sig og Björk en ekki fyrir börnin þeirra þrjú þar sem þau eru of lítil til að nota þær.
Danska ríkisstjórnin lokaði stórum hluta af samfélaginu þann 11. mars vegna heimsfaraldursins og í þættinum lýsir Ulrich því þegar hann fór að sækja eigur barnanna í skóla þeirra daginn eftir. Hann fór þá íklæddur hvítum heilgalla, með hanska og gasgrímu. Sami útbúnaður og sjá má á forsíðumynd þessarar greinar. Hann sagði að húsverðinum í skólanum hafi brugðið mjög þegar hann kom í skólann í þessum klæðnaði.
Í þættinum er meðal annars fylgst með Ulrich þegar hann fer að versla í hverfisbúðinni íklæddur heilgalla, með hanska og gasgrímu.
„Í fyrsta sinn sem ég fór að versla í hlífðargalla, með hanska og gasgrímu hugsaði ég með mér: „Hvað heldur hitt fólkið?“ En í þessari stöðu verð ég að leiða hjá mér hvað aðrir hugsa því ég verð að tryggja eigið öryggi og ég hef ekki hugmynd um hvort nærumhverfi mitt verði næsti miðpunktur faraldursins.“
„Fólki má alveg finnast ég bregðast of harkalega við, ég geri þetta ekki og bendi á það, ég geri þetta af því að ég vil passa upp á sjálfan mig og fjölskyldu mína,“
segir hann í þættinum um viðhorf annarra til hans.
Fjölskyldan seldi nýlega húsið sitt og keypti annað þar sem ætlunin er að útbúa neðanjarðarbyrgi.
Björk styður Ulrich heilshugar í þessu og segir:
„Ég er mjög ánægð með að hann geri þetta,“
þegar rætt er við hana í þættinum sem áhugasamir geta séð á DR1.