fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

„Helst virðast stjórnmálaforingjar vakna til lífsins þegar útdeila á almannafé til sérhagsmuna, jafnvel vildarvina“

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 21. september 2020 07:50

Benedikt Jóhannesson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

í grein sem Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar, skrifar í Morgunblaðið í dag fjallar hann um tilhneigingu margra stjórnmálamanna til að forðast að taka stórar ákvarðanir. Greininn ber heitið „Glæst fortíð framundan“.

Í upphafi hennar segir Benedikt að líklega sé fátt mikilvægara hjá stjórnendum en að geta tekið ákvarðanir en þessi kostur prýði því miður sjaldan stjórnmálamenn sem vilji frekar láta málin fljóta áfram án þess að taka á þeim og nefnir dæmi:

„Jón Magnússon var fyrsti forsætisráðherra Íslands. Hann þótti sviplítill forystumaður, svo litlaus að sagt var að enginn vissi alveg hvar Jón Magnússon stæði í pólitík. Ekkert fannst honum verra en að styggja einhvern með því að taka „ranga“ afstöðu. Einhverntíma gerðu tveir félagar hans sér leik að því þrátta um það hvort viðbitið á borðinu væri smjör eða smjörlíki og spurðu hann álits. Jón smakkaði smá klípu og sagði svo: „Ætli það sé ekki blanda?““

Hann nefnir síðan nokkur mál sem hafa lengi verið til umræðu en séu enn á byrjunarreit, þar á meðal Sundabraut, sanngjarnt auðlindagjald í sjávarútvegi, skynsamlega landbúnaðarstefnu, stöðugan gjaldmiðill, stjórnarskrármálið, umsókn um fulla aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru.

„Helsta viðfangsefni framsóknarflokkanna á þingi er að hefta för Íslands inn í framtíðina. Oft er haft á orði að „nú sé ekki rétti tíminn“ til að ræða tiltekið mál. Nú séum við að fást við annað. Tíminn sé knappur, upplýsingar ónógar, áhættan mikil. Svo hefur þetta auðvitað alltaf verið svona, hvers vegna að breyta til? Í gamla daga voru Tarzan-bækurnar vinsælar, en þar sást oft setningin: „Nú gerðist margt í senn.“ Í afturhaldsflokkunum finnast engir Tarzanar sem ráða við fleira en eitt í senn. Helst virðast stjórnmálaforingjar vakna til lífsins þegar útdeila á almannafé til sérhagsmuna, jafnvel vildarvina,“

segir Benedikt og bætir að aldrei þurfi að fresta þessum dagskrárliðum því það sé bæði sælt að gefa og þiggja.

Hann lýkur síðan máli sínu á að segja að margir stjórnmálamenn nútímans finni sér alltaf ástæðu til að bíða og sjá til, mottó þeirra sé: „Frestur er á öllu bestur.“

„Þar með er ekki sagt að yfirgangur meirihlutans sé farsæl aðferð. Þvert á móti þarf að ræða hvaða leið sé best til almannaheilla. Þeir sem forréttindanna njóta verja þau af hörku, áður fyrr með kjafti og klóm, en nú á tímum oftar með keyptum málpípum. Á endanum leiðir slíkur þvergirðingsháttur yfirleitt til afleitrar niðurstöðu fyrir „aðalinn“, hver sem hann er hverju sinni. Stundum tapa allir. Þess vegna vill Viðreisn setja öll stóru málin á dagskrá. Klárum þau og bætum stöðu allra, ekki bara sumra. Þannig færist Ísland með umheiminum inn í framtíðina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt