Í skýrslunni kemur fram að mörg þessara glæpagengja hafi náð miklum völdum og áhrifum í samfélaginu. Félaga í þeim sé meðal annars að finna í stjórnmálum, í bönkum, í atvinnumiðlunum, á fasteignamarkaði og á sjúkrahúsum.
Samkvæmt frétt Expressen er vandinn mestur í Södertälje, sem er nærri Stokkhólmi, þar sem fjölskylduglæpagengi hafa hreiðrað um sig í nær öllum hlutum samfélagsins. Auk þess að tengjast sprengingum, skotárásum og fleiri „hefðbundnum“ afbrotum eru félagar í glæpagengjunum áhrifamiklir í atvinnulífinu.
„Það er mat lögreglunnar að félagar í Södertälje-samtökunum telji sig ekki vera afbrotamenn, heldur verktaka. Markmið og þarfir glæpagengisins skipta mestu en sænsk lög og reglur eru aukaatriði,“
segir meðal annars í skýrslunni sem var gerð fyrr á árinu og var leynileg fram að afhjúpun Expressen sem segir að í henni komi einnig fram að í Södertälje-samtökunum hafi verið fjórir félagar sem hafi á síðustu tveimur áratugum setið á sænska þinginu. Í samtali við Aftonbladet neitaði einn þessara stjórnmálamanna að hafa nokkur tengsl við glæpagengi en hann, ásamt fleirum, er nafngreindur í skýrslunni.