fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Fréttir

Tekist á um amfetamín í réttarsölum héraðsdóms

Heimir Hannesson
Laugardaginn 19. september 2020 10:30

Lögmennirnir Guðni Jósep Einarsson og Þorgils Þorgilsson á lögmannsstofunni Juvo láta lítið fyrir sér fara, en hafa á undanförnum árum tekið að sér mörg af stærstu sakamálum landsins. Saman standa þeir að kröfu um sérfræðimat á því hvað amfetamínframleiðsla er, í máli sem nú fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samsett mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómar fyrir amfetamínframleiðslu eru fáir á Íslandi en nema samanlagt mörgum áratugum. Nú er skoðað hvað framleiðsla felur í sér. Niðurstaðan gæti skekkt grundvöll margra þungra fangelsisdóma.

U m þessar mundir er rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem tveir menn, þeir Matthías Jón Karlsson og Vygantas Visinskis, eru ákærðir fyrir aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti. Þeir félagar eru sagðir hafa framleitt amfetamín úr svokölluðum amfetamínbasa, sem mikið hefur verið til umfjöllunar í fréttum undanfarið. Amfetamínbasi er sterk formúla amfetamíns, sem flutt er inn erlendis frá í vökvaformi. Úr litlu magni amfetamínbasa má vinna talsvert magn af amfetamíni, sem er svo þynnt út áður en það er selt á götunni.

Magnið sem þeir Matthías og Vygantas eru sagðir hafa framleitt er 11.217 grömm. Þar af höfðu 3.936 grömm af efninu um 20% styrkleika, og restin, 7.261 grömm um 6-9% styrkleika, samkvæmt ákærunni sem DV hefur undir höndum.

Eru tvímenningarnir ákærðir fyrir framleiðslu á fíkniefnum, en í því sama ákvæði er lagt bann við sölu og dreifingu fíkniefna.

Sami refsirammi en ólíkar refsingar

Ljóst er af lestri ákvæðisins, að löggjafinn hefur lagt alvarleika þess að flytja inn efni og að framleiða þau að jöfnu, og falla þessi tvö brot í sama refsirammann. Engu að síður er af dómaframkvæmd undanfarin ár ekki hægt að ráða annað en að mun þyngri dómar falli í málum sem tengjast framleiðslu, en þeim sem tengjast innflutningi efna eða sölu þeirra innanlands. Í fyrsta dóminum vegna framleiðslu amfetamíns hér á landi, frá árinu 2009, sagði reyndar berum orðum að meta bæri alvarleika framleiðslu meiri en smygls.

Mörgum hefur jafnframt þótt það skjóta skökku við að umbreyting amfetamínbasa yfir í amfetamínnítrat, eða amfetamín í duftformi, geti talist framleiðsla. Benda lögmenn mannanna, Guðni Jósep Einarsson og Þorgils Þorgilsson, á að þarna sé einfaldlega verið að breyta amfetamíni í amfetamín. Það geti varla talist vera framleiðsla, enda efnið þegar fullframleitt amfetamín í basaformi. Á þetta benda lögmenn þeirra Matthíasar og Vygantas meðal annars í yfirstandandi réttarhöldum.

Amfetamín er ekki bara amfetamín

Lögmennirnir ganga raun enn lengra og benda á að taka verði tillit til styrkleika efnanna. Ef eitt kíló af 100% hreinu amfetamíni er þynnt með kílói af íblöndunarefnum, sem í langflestum tilfellum séu lögleg efni í duftformi, til dæmis kreatín eða mjólkursykur, fáist tvö kíló. Engu að síður er um sama magn virka og ólöglega efnisins að ræða þó þyngri dóms væri að vænta fyrir tvö kílóin en það eina hreina.

Ef reiknað er út magn hreins amfetamíns sem þeir Matthías og Vygantas voru að sýsla með, fæst út að þeir hafi „aðeins“ verið með um 1.330 grömm. Rök lögmannanna snúa þannig að því að munur sé á 1,3 kílóum og 11,2. Raunar eru til fordæmi fyrir notkun útreikninga af þessu tagi í íslenskum lögum. Til dæmis er áfengisskattur reiknaður af hverjum cl. af „hreinum vínanda.“

Lögmenn þeirra Matthíasar og Vygantas láta nú reyna á þessi atriði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þar síðustu viku úrskurðaði dómari að kallaður skyldi til sérfræðingur í efnafræði og að hann skyldi leggja fram mat sitt á því hvort umbreyting basans í duft sé framleiðsla eða ekki. Verður það í fyrsta skipti sem það fæst staðfest af sérfræðingi fyrir íslenskum dómstól. Þetta þykir sérstaklega áhugavert í ljósi þess að bara á þessu ári hafa þegar fallið þungir dómar fyrir einmitt þennan glæp. Í júní dæmdi Landsréttur þrjá menn í samtals 16 ára fangelsi fyrir að hafa breytt amfetamínbasa í duftform í sumarbústað í Borgarfirði.

Hikandi Hæstiréttur og skökk fordæmi

Í Borgarfjarðarmálinu reynir reyndar á fleiri atriði og hefur einn mannanna sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur hingað til virst veigra sér við að taka sakamál til skoðunar. Hér ber þó að taka fram að í vikunni veitti Hæstiréttur áfrýjunarleyfi í sakamáli Þórhalls Guðmundssonar, sem oftast er kallaður Þórhallur miðill.

Í áfrýjunarleyfisbeiðninni sem DV hefur undir höndum er fjallað um rök fyrir veitingu áfrýjunarleyfisins. Er þar nefnt að dómurinn yfir Borgarfjarðarþremenningunum sé aðeins annar dómurinn sem fellur um framleiðslu amfetamíns á Íslandi og að hann hafi byggt, skv. niðurstöðukafla dómsins, að miklu leyti á fordæmi frá þeim fyrsta. Þar var þó um framleiðslu amfetamíns frá grunni að ræða og málin því, að sögn lögmanns, ekki samanburðarhæf. Segir í áfrýjunarleyfisbeiðninni að þessi dómur, sem Héraðsdómur kallar fordæmisgefandi, hafi takmarkað fordæmisgildi „sama hvað gildi fyrrgreindan héraðsdóm.“ Enn fremur segir þar: „Rétturinn þarf að taka afstöðu til þess hvort ákvæði sem slíkt geti staðið undir mismunandi refsingum vegna brota sem öll heyra undir ákvæðið.“ Er þar vísað til þess hvort réttmætt sé að refsa meira fyrir framleiðslu en sölu.

Áratugalangir dómar undir

Staðan nú er því sú að tvö stór, veigamikil og fordæmisgefandi mál, eru nú á leið sinni í gegnum réttarkerfið. Fyrst mál Matthíasar og Vygantasar þar sem kallaður verður til efnafræðingur og þeirri
spurningu svarað hvort hægt sé að framleiða amfetamín úr amfetamínbasa, eða hvort um umbreytingu sé að ræða. Annað er mál borgfirsku þremenninganna, sem nú bíður niðurstöðu Hæstaréttar um hvort rétturinn muni taka það fyrir.

Niðurstöður þessa tveggja mála gætu haft veigamikil áhrif á líf þeirra níu einstaklinga sem hlotið hafa samtals 38 ára fangelsisdóma vegna amfetamínframleiðslu á síðastliðnu ári auk Matthíasar og Vygantas, sem nú bíða síns dóms.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Meintur gerandi Sofiu var í sambandi við þrjár aðrar konur – Braut á einni kynferðislega, tók aðra kverkataki og fékk peninga að „láni“ hjá þeirri þriðju

Meintur gerandi Sofiu var í sambandi við þrjár aðrar konur – Braut á einni kynferðislega, tók aðra kverkataki og fékk peninga að „láni“ hjá þeirri þriðju
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Segir undarlegt að sjá þekkt undirheimafólk í tálbeituhópum – „Þarna virðast glæpamenn vera að ná sér í pening“

Segir undarlegt að sjá þekkt undirheimafólk í tálbeituhópum – „Þarna virðast glæpamenn vera að ná sér í pening“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum
Fréttir
Í gær

Vilja koma í veg fyrir að hörmungarnar í október endurtaki sig

Vilja koma í veg fyrir að hörmungarnar í október endurtaki sig
Fréttir
Í gær

Segir töluvert um kynferðislegt ofbeldi innan íslenskra fangelsa – „Verra kannski að vera fastur í fangelsi með geranda sínum“

Segir töluvert um kynferðislegt ofbeldi innan íslenskra fangelsa – „Verra kannski að vera fastur í fangelsi með geranda sínum“
Fréttir
Í gær

Vilja að ráðherra kortleggi eignir 20 stærstu útgerðarfélaganna – Skýrsla Kristjáns Þórs þótti hlægileg

Vilja að ráðherra kortleggi eignir 20 stærstu útgerðarfélaganna – Skýrsla Kristjáns Þórs þótti hlægileg