China News Service skýrir frá þessu. Fram kemur að forgangsraðað verði hverjir fái bóluefni fyrst og verði það fólk í framlínu baráttunnar gegn veirunni og fólk sem er í sérstökum áhættuhópum.
Gao Fu sagði að í tengslum við bólusetningaáætlun yrði að meta „áhættu og ávinning“, og þar væru meðal þátta kostnaður og aukaverkanir.
„Eins og staðan er núna er ekki þörf fyrir allsherjarbólusetningu en það gæti breyst ef önnur alvarleg bylgja á sér stað,“
sagði hann.
CNN bendir á að þessi stefna kínverskra stjórnvalda sé önnur en stefna margra Vestrænna ríkja, sérstaklega Ástralíu, sem hafa í hyggju að bólusetja eins marga og hægt er.
Kínverjar hafa haft ágæt tök á útbreiðslu veirunnar síðan í vor. Nokkur staðbundin smit hafa átt sér stað en yfirvöldum tókst fljótt að ná stjórn á þeim með öflugum aðgerðum, lokunum og miklum skimunum. Gao vísaði til þessara litlu faraldra í máli sínu og sagði þá sýna að yfirvöld hafi góð vopn til að berjast við faraldurinn.
Hann sagði að framlínufólkið, sem verði í forgangi með bólusetningar, verði heilbrigðisstarfsfólk, Kínverjar sem starfa erlendis þar sem veiran er útbreidd og fólk sem starfar í margmenni þar sem smithætta er mikil, til dæmis á veitingastöðum, skólum eða við þrif.