Bandaríkin, Indland og Brasilía eru þau ríki þar sem flestir hafa smitast og látist. Í Bandaríkjunum hafa 6,7 milljónir smita verið staðfest, 5,1 milljón á Indlandi og 4,4 milljónir í Brasilíu.
Svo virðist sem útbreiðsla veirunnar hafi náð ákveðnu jafnvægi um miðjan júlí þannig að fjöldi smitaðra eykst um eina milljón á hverjum fjórum dögum. Það liðu 94 dagar frá upphafi faraldursins þar til ein milljón smita hafði verið staðfest. Síðan liðu 86 dagar þar til 10 milljónir smita höfðu verið staðfest en það var þann 28. júní.
Síðan þá hefur fjöldi smitaðra þrefaldast.
Rétt er að hafa í huga að tölurnar frá Johns Hopkins University sýna líklega aðeins hluta þeirra sem hafa smitast. Mikill munur er á hvernig sýnatöku er háttað í einstökum ríkjum og því erfitt að gera samanburð.
Nú hafa rúmlega 942.000 dauðsföll af völdum veirunnar verið skráð hjá Johns Hopkins University. Flest í Bandaríkjunum eða um 200.000.