Margir sjófarendur hafa skýrt frá hópum háhyrninga sem hafa synt að bátum þeirra, synt í hringi um þá og síðan synt beint á þá. The Guardian skýrir frá þessu.
Meðal annars er haft eftir bresku konunni Victoria Morris að níu háhyrningar hafi umkringt bát hennar í sumar þegar hún var á siglingu. Þeir hafi síðan dúndrað líkömum sínum inn í bátinn í heila klukkustund.
„Þeir létu bátinn snúast í 180 gráður, vélin drap á sér og stýrið brotnaði. Háhyrningarnir áttu allan tíman í samskiptum með háum flautum. Það var eins og þetta væri skipulagt,“
sagði Morris.
Skipstjóri einn sagði að háhyrningar hafi „ráðist“ á bát hans í um 50 mínútur og hafi þeir synt á bát hans af svo miklu afli að stýrimaðurinn hafi næstum farið úr axlarlið.
Síðasta þekkta tilvikið var á föstudaginn undan strönd spænska bæjarins A Coruna. Þar réðst háhyrningur að minnsta kosti 15 sinnum á bát með því að nánast kasta líkama sínum á hann. Skipstjórinn varð að leita til hafnar til að kanna hvort tjón hefði orðið á bátnum.
Háhyrningar eru yfirleitt friðsöm og forvitin dýr og því eru margir sjávarlíffræðingar hissa á þessari hegðun þeirra að sögn The Guardian. Fram kemur að þessi hegðun þeirra geti bent til að þeir séu hugsanlega stressaðir.