DailyStar greinir frá þessu. Kompany fannst de Bruyne vera ofmetinn þegar hann sá hann fyrst spila með eigin augum. Þeir félagar unnu þó 8 bikara saman með Manchester City og eru í dag góðir vinir. „Hann kom í landsliðið þegar hann var mjög ungur og þá leist mér ekki svo vel á hann,“ segir Kompany um samlanda sinn. „Ég veit ekki af hverju, mér fannst hann bara væla svo mikið. Hann reyndi að gera hluti sem virkuðu ekki þá og ég sagði að það væri synd, því við þurftum á meiri hæfileikum að halda.“
Kompany segir að þegar de Bruyne varð eldri fór hann að verða miklu betri. „Allt í einu, áður en maður vissi af var hann orðinn besti leikmaðurinn okkar,“ segir fyrrum fyrirliðinn. Kompany er þó viss um að de Bruyne hefði ekki orðið svona góður ef ekki hefði verið fyrir þjálfara Manchester City, Pep Guardiola. „Þegar de Bruyne stóð sig ekki vel þá lét Guardiola hann vita af því og spurði hvers vegna hann væri ekki að standa sig.“