Boðað var til skyndifundar í Lundúnum í gær þar sem Maros Sefcovic, varaforseti ESB, ræddi við Michael Gove, sem fer með Brexit málin fyrir hönd Breta.
ESB krefst þess að lagafrumvarpið verði dregið til baka, ef það verður ekki gert sé hætta á að það eyðileggi yfirstandandi viðræður um nýjan viðskiptasamning ESB og Bretlands.
Í skilnaðarsamningi ESB og Breta er kveðið á um að landamærin á milli Norður-Írlands, sem er hluti af Bretlandi, og Írlands, sem er meðlimur í ESB, verði áfram opin. Til að þetta gangi upp verða landamæri í miðju Írlandshafi semja verður um hvaða vörur verða settar undir eftirlit þegar þær fara frá Norður-Írlandi til annarra hluta Bretlands og öfugt. Í fyrrnefndu lagafrumvarpi segir hins vegar að það séu bara breskir ráðherrar sem ákveði þetta.
Brandon Lewis, ráðherra málefna Norður-Írlands, sagði fyrr í vikunni á þinginu að frumvarpið brjóti gegn alþjóðalögum að litlu leyti.
ESB er þessu ekki sammála og telur að um stórfellt brot sé að ræða og að ef Bretar standi fast á þessu muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skilnaðarsamninginn og alþjóðalög.