Birgir Örn Arnarson er eigandi hússins en hann segir að ekki hafi staðið til að rífa húsið samkvæmt frétt RÚV um málið. Til stóð að hækka húsið um eina hæð og fékkst byggingarleyfi fyrir því. Birgir segir að framkvæmdir við hækkunina hafi verið hafnar fyrir gærdaginn en í gær var þakinu lyft af og timburgólf milli fyrstu og annarrar hæðar fjarlægt vegna myglu og rakaskemmda.
Birgir segir að húsið hafi hrunið vegna þess að ekki var burðarvirki undir síðum gluggum á framhlið hússins. Þá segir hann að það hafi verið óhapp að húsið hafi hrunið og að það sé búið að tilkynna óhappið.
DV hefur áður fjallað um Birgi en það var einnig vegna þess að hann var eigandi á húsi í miðbænum. Það mál fjallaði um veitingastaðinn LOF sem var til húsa á Mýrargötu 31 í Reykjavík. Tæpum þremur mánuðum eftir að staðurinn var opnaður var honum lokað aftur. Margir starfsmenn fyrirtækisins og birgjar þess sátu eftir með sárt ennið þar sem þeir höfðu ekki fengið laun sín greidd. Eigendur fyrirtækisins LOF Restaurant ehf. voru, ásamt Birgi, þeir Enzo Rinaldi og tengdasonur Birgis, Jakob Helgi Bjarnason.
Samkvæmt upplýsingum frá fyrrum starfsmönnum félagsins kom hugmyndin að opnun staðarins frá Rinaldi og félaga hans Garcia og leituðu þeir til Birgis og Jakobs til þess að leigja húsnæðið við Mýrargötu sem var í þeirra eigu og var nýreist.