fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Páll reiður og birtir bréf frá móður sakbornings í Samherjamálinu – „Lágkúra RÚV náði nýjum lægðum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. september 2020 17:21

Til hægri: Páll Steingrímsson. Samsett mynd DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samherjamenn hafa brugðist ókvæða við frétt Ríkisútvarpsins frá því í gærkvöld þar sem birt voru nöfn sex starfsmanna Samherja sem hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn Héraðssaksóknara á ætluðum mútum, peningaþvætti og fleiri meintum brotum félagsins í Namibíu.

Samkvæmt frétt RÚV hefur héraðssaksóknari engar upplýsingar viljað veita um gang rannsóknarinnar en heimildir RÚV herma að sex tilteknir starfsmenn hafi stöðu sakbornings í rannsókninni. Meðal þeirra eru Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri fyrirtækisins og Jóhannes Stefánsson uppljóstrari í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um málefni Samherja í Namibíu. Reiði Samherja virðist stafa af nafnbirtingum á fjórum öðrum starfsmönnum í þessu samhengi, fólki sem þeir segja vera lítt þekkt í samfélaginu.

Páll Steingrímsson skipstjóri hefur vakið athygli fyrir harða málafylgju með Samherja og hefur varið fyrirtækið ötullega í greinaskrifum sínum. Páll birtir eftirfarandi Facebook-pistil um frétt RÚV:

„Lágkúra RÚV náði nýjum lægðum í gærkvöldi þegar að birtar voru myndir af sex núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja og upplýst að viðkomandi starfsmenn væru með réttarstöðu sakborninga í sakamáli sem er til rannsóknar hjá embætti Héraðssaksóknara. Mér vitanlega hefur fjölmiðil ekki birt áður slíkar upplýsingar ekki einu sinni þegar að menn eru grunaðir um gróf ofbeldisverk, erum við virkilega komin þangað að æruvernd starfsmanna Samherja er enginn þegar að kemur að því að rikisfjölmiðill þurfi að hefna sín er það virkilega svo að starfsfólk RÚV er farið að haga sér verr en starfsfólk götublaða víða erlendis.“

Bar kistu afa síns til grafar sama dag og fréttin birtist

Páll birtir síðan pistil frá móður eins starfsmannanna en svo óheppilega vildi til að jarðarför var í fjölskyldunni í gær og fylgdi viðkomandi starfsmaður Samherja afa sínum til grafar. Konan fer hörðum orðum um fréttaflutning RÚV og bendir á að dóttir sín, sem RÚV nafn- og myndbirti í fréttinni, sé ekki opinber persóna. Segir hún að fréttin hafi birst í miðri samverustund fjölskyldunnar:

„Kæru vinir.

Í gær fylgdi ég pabba mínum til grafar. Kom það í hlut barnabarnanna, þar með talið elstu dóttur minnar, að bera kistu afa síns til grafar. Aðdragandi andlátsins var ekki langur og höfum við fjölskyldan því ekki haft mikinn tíma til að átta okkur á orðnum hlut og syrgja pabba. Það var fyrst í gær, eftir útförina, þegar öll fjölskyldan kom saman heima hjá pabba og mömmu á Akureyri, sem mér fannst ég átta mig á að hann var ekki og mundi ekki verða þar framar.

Í miðri samverustund fjölskyldunnar birti fréttastofa Ríkisútvarpsins „frétt“ þess eðlis að dóttir mín ásamt öðrum væri sakborningur í alvarlegu máli sem rekið hefur verið á einhliða og afar óvæginn hátt í fjölmiðlum. Ekki nóg með að fjallað væri um þessa stöðu hennar í fréttatímanum heldur var birt mynd af henni og hún nafngreind.

Dóttir mín er ekki opinber persóna og hefur örsjaldan verið nafngreind í fréttum vegna starfs síns. Þá hefur margsinnis komið fram áður að þetta mál er í rannsókn og því er það varla fréttnæmt þegar það verður breyting á réttarstöðu fólks sem starfar fyrir Samherja. Engin ákæra hefur verið gefin út og enginn dómur fallið.

Ég hef ekki val um hvort ég borgi í rekstur Ríkisútvarpsins, mér er það skylt. En ég kæri mig ekki um að greiða áfram til stofnunar sem rekur fréttastofu þar sem fréttamenn nota fréttatíma í áróður sinn gegn einstaka fólki og fyrirtækjum. Dóttir mín fékk ekki að vita af fyrirhugaðri umfjöllun áður en fréttin birtist í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Það er afar særandi að horfa upp á þá meðferð sem dóttir mín og samstarfsfólk hennar hefur mátt þola. Á meðan útvarpsstjóri lætur þessi vinnubrögð fréttastofunnar athugasemdalaus, ber hann alveg jafn mikla ábyrgð og fréttastjórinn.“

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt