Fréttablaðið skýrir frá þessu. Hvað varðar andlega heilsu segja flest íslensk börn að þeim líði almennt vel eða 81% af öllum 15 ára börnum. En samt sem áður er sjálfsvígshlutfall 15 til 19 ára með því hæsta sem gerist, eða tæplega 10 á hver 100.000 á ári.
Íslensk börn eru ánægðari með líkama sinn en börn í öðrum löndum en í heildina eru stúlkur óánægðari með líkama sinn en drengir en munurinn á milli kynjanna er minni hér á landi en í flestum öðrum löndum.
Í skýrslunni er einnig komið inn á lestrarkunnáttu og kemur fram að 62% íslenskra barna hafi viðmiðunarfærni í lestri og stærðfræði við 15 ára aldur. En félagsfærni, eða öllu heldur skortur á henni, er stærra vandamál hér á landi og skorar Ísland lægst allra Evrópuþjóða. Það er aðeins í Japan og Síle sem börn segjast eiga erfiðara með að eignast vini.
Fréttablaðið hefur eftir Ingibjörgu Karlsdóttur, félagsráðgjafa, að staða íslenskra barna komi ekki á óvart. Hún hefur unnið að málefnum barna og unglinga í tæp þrjátíu ár. Hún sagði að félagsfærni hafi ekki verið sinnt nægilega vel hér á landi.
Hún sagði marga samverkandi þætti eiga hlut að máli:
„Eitt er fjölgun barna með ýmsar greiningar og raskanir sem auka líkurnar á skertri félagsfærni. Á bilinu fimm til tíu prósent barna eru með ADHD-greiningar. Um tvö prósent eru á einhverfurófi, það er hægt að setja beint samasemmerki milli þess og slakrar félagsfærni. Svo eru það tæknibreytingar. Við finnum mjög fyrir því á BUGL að börn eru að ánetjast gsm-símanum og tölvunni. Það getur þróast þannig að tölvan verður þeirra besti vinur, þá eru þau síður að hitta börn í raunheimum á meðan. Þá er hætt við að þau missi niður hæfnina til félagslegra samskipta,“
er haft eftir henni. Hún sagði einnig að alvarlegar afleiðingar hljótist af félagslegri einangrun barna og unglinga. Þau eigi á hættu að þróa alvarleg geðræn vandamál með sér og hætta á skólaforðun aukist sem og brottfall úr námi. Einnig aukist hættan á að þau leiðist út í fíkn af ýmsu tagi.