Í september árið 2018 fór Reynheiður í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Þar fékk hún þær niðurstöður að allt væri í lagi en seinna eftir það fóru einkenni krabbameinsins að koma fram. Svanur Þór Þrastarson, eiginmaður Reynheiðar, vaknaði við það eitt kvöld að Reynheiður var komin inn á klósett, 11 mánuðum eftir að hún fór í rannsóknina. „Þá er henni bara hreinlega að blæða út,“ segir Sigurbjörg Gunnarsdóttir, móðir Reynheiðar.
„Þá kemur það í ljós við rannsókn að æxlið er orðið mjög stórt og búið að dreifa sér upp í gallblöðru og umvafið æðum sem þeir þora ekki að hreyfa við, þora ekki að koma við það, það er orðið það stórt.“
Reynheiður greindist með frumubreytingar í legi þegar hún var tvítug. Þá var hún send í keiluskurð og sett í áhættuhóp. Reynheiður var jörðuð um helgina en sama dag greindi Stöð 2 frá alvarlegum mistökum hjá starfsmanni Krabbameinsfélagsins. Mistökin sem um ræðir voru gerð við skoðun leghálssýnis úr konu um fimmtugt, árið 2018. Konan fékk rangar niðurstöður úr rannsókninni og er nú með ólæknandi krabbamein.
Fjölskylda Reynheiðar vildi fá svör eftir þessar fréttir og fengu þau svör frá Krabbameinsfélaginu í dag. Í svarinu segir að engar frumubreytingar hafi sést í sýni Reynheiðar frá árinu 2018 en vægar frumubreytingar hafi verið í sýninu frá árinu 2016. Engin HPV-veira mældist í því sýni og því var ekki talið að það þyrfti að skoða það frekar. Fjölskylda Reynheiðar segir að hún hafi þó aldrei fengið að vita af þessum frumubreytingum.
Þau velta því fyrir sér hvers vegna það var ekki haft samband við hana árið 2016 og hún látin vita af þessum vægu frumubreytingum því þá hefði hún kannað málið meira sjálf. Svanur telur að ef hún hefði verið látin vita af frumubreytingunum þá hefði hún látið fjarlægja legið úr sér, hún hafði verið búin að pæla í að gera það áður.
Þá veltir fjölskylda hennar einnig fyrir sér hvort að sýnið sem tekið var árið 2018 hafi verið rétt skoðað og ekkert sést í því. „Miðað við veikindin og miðað við æxlið og annað þá bara getur þetta bara ekki passað,“ segir Svanur.
Uppfært kl. 20:36 með yfirlýsingu frá Krabbameinsfélagi Íslands sem var send á fjölmiðla:
Varðandi fréttir af mistökum um skimun hjá Leitarstöð.
Það er verið að vinna eftir viðbragðsáætlun félagsins, meðal annars með því að flýta skoðun þeirra 6.000 sýna sem eru í úrtakinu sem um ræðir og kalla inn konur sem þörf er á að skoða aftur. Verið er að kalla inn auka starfsfólk til að flýta enn frekar vinnu við endurskoðun sýnanna.
Fjöldi kvenna hefur haft samband við Leitarstöð Krabbameinsfélagsins síðustu daga. Skiljanlega hefur málið vakið upp ótta meðal margra um hvort mistök kunni að hafa átt sér stað við greiningu í þeirra tilviki. Ekki er ástæða til að allar konur sem komið hafi í skimun að undanförnu þurfi að óttast slíkt. Þær konur sem þarf að skoða aftur eru kallaðar jafn óðum í frekari skoðun sé minnsti grunur um frumubreytingar og þeirra rannsóknir fá flýtimeðferð. Ekki hafa komið í ljós nein önnur alvarleg tilvik. Þó hefur í 30 tilfellum hingað til verið talin ástæða til nýrrar skoðunar viðkomandi kvenna, svo fyllstu varúðar sé gætt.
Krabbameinsfélagið harmar þetta hörmulega mál sem nú er til rannsóknar hjá Embætti landlæknis og þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur þegar haft.