Eftir tæplega 70 ára farsæla aðild Íslands að NATO vekur undrun að um þetta skuli spurt. Ekkert mælir með úrsögn úr NATO. Engin málefnaleg rök eru fyrir að mótuð skuli önnur stefna fyrir Ísland í öryggis- og varnarmálum en aðild að NATO.
Að þjóðirnar austan og vestan Atlantshafs sameinuðu krafta sína í varnarmálum árið 1949 og buðu Íslendingum stofnaðild að bandalagi sínu var gæfuspor fyrir unga íslenska lýðveldið og auðveldaði því að tryggja sjálfstæði sitt í ótryggum heimi.
Sömu grunnrökin og þá voru kynnt eiga við enn þann dag í dag: samstaða með frjálsum nágrönnum og samleið í öryggismálum er besta framlag Íslendinga í þágu friðar í eigin heimshluta.
Ísland hefur ekkert erindi í NATO. Fyrir utan fáránleika þess að Ísland sé eina herlausa ríkið í veröldinni sem er aðili að hernaðarbandalagi, þá er óþolandi að við styðjum með aðild okkar þau öfl sem ýta undir vígvæðingu og gera heiminn hættulegri, eins og með þátttöku í stríðum í löndum á borð við Afganistan og Líbíu.
NATO áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og stendur í vegi fyrir alþjóðasamningum um útrýmingu slíkra vopna. NATO er jafnframt bandalag sem hefur innanborðs mörg helstu vopnaframleiðsluríki heims. Það gerir þá kröfu til aðildarríkja sinna að þau eyði háum fjárhæðum í hernaðarmál, sem betur væri varið í önnur verkefni.
Sem fámennt herlaust land, sem engum stendur ógn af, gæti Ísland lagt mun meira af mörkum til að koma á friði í heiminum með því að standa utan allra hernaðarbandalaga en vera þess í stað öflugur málsvari friðsamlegra lausna deilumála á alþjóðavettvangi.