Sara gekk í sumar til liðs við franska liðið Lyon en fyrir það spilaði hún með þýska liðinu Wolfsburg. Sara mætti sínum gömlu liðsfélögum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gærkvöldi og vann leikinn. Sara tryggði sigur Lyon með marki á lokamínútum leiksins.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskaði Söru til hamingju á Facebook-síðu sinni í dag. „Þessi vika hófst með þeim gleðitíðindum að Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu með liði sínu Lyon í Frakklandi,“ sagði Guðni.
„Sara gerði gott betur og skoraði lokamark leiksins sem gulltryggði sigur franska liðsins. Ég sendi henni heillaóskir með þennan frábæra árangur. Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu á mikilvæga leiki framundan í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer að tveimur árum liðnum. Ég óska liðinu góðs gengis í þeirri baráttu.
Guðni deilir mynd með færslunni en á myndinni má sjá Guðna ásamt Söru og Magnúsi Erni Helgasyni, höfundi bókarinnar Óstöðvandi en bókin fjallar um knattspyrnuferil Söru. Hér fyrir neðan má sjá myndina sem um ræðir.