Innlend þáttagerð springur út á næstu mánuðum og virðist áherslan vera á grín og drama. Enginn spennuþáttur er á dagskrá en Ráðherrann, Eurogarðurinn og Venjulegt fólk lofa góðu svo ekki er ástæða til þess að kvíða næstu lægð. Hér förum við yfir helstu þætti á dagskrá sjónvarpsstöðvanna í haust og vetur.
RÁÐHERRANN
RÚV – hefst 20. september
Leiknir þættir með Ólafi Darra Ólafssyni og Anitu Briem í aðalhlutverkum. Þegar forsætisráðherra greinist með geðhvarfasýki þarf aðstoðarmaður hans að leggja bæði stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til þess að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni. Leikstjórn: Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson.
EUROGARÐURINN
STÖÐ 2 – hefst 27. september
Eurogarðurinn er gamanþáttaröð sem gerist í Húsdýragarðinum og fjallar um drykkfelldan miðaldra braskara með vafasaman viðskiptaferil sem kaupir Húsdýragarðinn. Hann hefur stórkostlegar hugmyndir um framtíð garðsins sem hann kallar Eurogarðinn, sem hann sér fyrir sér ná upp í sömu stærðargráðu og Disney-World. Helstu hlutverk: Jón Gnarr, Anna Svava Knútsdóttir, Auðunn Blöndal, Steindi Jr. og Dóri DNA.
ÞAÐ ER KOMINN HELGI
SJÓNVARP SÍMANS – hefst 19. september
Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins, Helgi Björns, snýr aftur heim í stofu landsmanna! Fylgstu með Helga Björns og Reiðmönnum vindanna flytja nokkrar sívinsælar dægurperlur með aðstoð góðra gesta.
SMÁBORGARASÝN FRÍMANNS
RÚV – hófst 16. ágúst
Heimsborgarinn Frímann Gunnarsson ferðast um landið á húsbíl og rannsakar hvort í dreifbýlinu sé yfir höfuð einhverja menningu að finna. Hann hefur engar væntingar en mun auðvitað koma með menninguna með sér í farteskinu.
FC ÍSLAND
STÖÐ 2- hófst 20. ágúst
Skemmtilegir þættir þar sem við fylgjumst með mörgum af þekktustu fyrrverandi knattspyrnumönnum sem eiga allir góðan feril að baki og hittast reglulega til að spila saman fótbolta. Þeir ferðast í kringum landið sem eitt lið, skora á úrvalslið bæjarfélaga til að spila góðgerðarleik til styrktar málefnum í hverju sveitarfélagi. Birkir Kristins, Jón Jóns og Eiður Smári eru meðal þeirra sem dusta rykið af takkaskónum.
ALLT ÚR ENGU
STÖÐ 2 – hófst 24. ágúst
Matarsóun er eitur í eyrum Davíðs Arnar Hákonarsonar sem hefur á ferli sínum sem matreiðslumaður lagt áherslu á nýtingu matvæla á sama tíma og hann töfrar fram óvænta og skemmtilega rétti fyrir matargesti sína. Davíð mun kenna áhorfendum góðar leiðir til að koma í veg fyrir matarsóun og spjalla við skemmtilega gesti í þáttunum.
VENJULEGT FÓLK
SJÓNVARP SÍMANS – hefst 28. október
Þriðja þáttaröðin af Venjulegu fólki fer í loftið í október. Dramatískir þættir með gamansömu ívafi og fjalla þeir um samband tveggja vinkvenna og þær hversdagslegu áskoranir sem fylgja fullorðinsárunum. Með aðalhlutverk fara Vala Kristín, Júlíana Sara, Hilmar Guðjónsson og Arnmundur Ernst. Vala og Júlíana skrifa þættina ásamt Dóra DNA og Fannari Sveinssyni úr Hraðfréttum en hann leikstýrir einnig þáttunum.
NÝJASTA TÆKNI OG VÍSINDI
RÚV – hefst 14. september
Vísindin í nærumhverfi okkar skoðuð út frá fjölbreyttum og fróðlegum sjónarhornum. Umsjónarmenn: Sigmar Guðmundsson, Sævar Helgi Bragason og Edda Elísabet Magnúsdóttir.
KVISS
STÖÐ 2 – hefst 5. september
Spurningaþáttur þar sem þekktir Íslendingar keppa fyrir hönd íþróttafélaganna sem þeir styðja. Þótt liðin skiptist eftir íþróttafélögum er ekki um íþróttaþátt að ræða, heldur eru spurningar úr öllum áttum. Keppendur eru ekki íþróttafólk heldur nægir að þeir hafi alist upp í hverfi íþróttafélagsins eða hafi æft íþróttir með félaginu á yngri árum. Umsjónarmaður þáttarins er uppistandarinn og sjónvarpsmaðurinn Björn Bragi Arnarsson.
KAPPSMÁL
RÚV – hefst 11. september
Ný syrpa af þessum skemmtiþætti um íslenska tungu í umsjón Bjargar Magnúsdóttur og Braga Valdimars Skúlasonar þar sem þátttakendur etja kappi í fjölbreyttum leikjum og þrautum, meðal annars í taugatrekkjandi stöfunarkeppni og í sérhannaðri útgáfu af hengimanni.
ENSKI BOLTINN
SJÓNVARP SÍMANS – hefst 12. September
Undirbúningur fyrir nýtt tímabil í Enska boltanum er í fullum gangi hjá Símanum. Tómas Þór er að gera sig kláran fyrir Völlinn en þar fær hann til sín góða gesti eftir hverja umferð, þar sem farið er yfir stóru málin í enska boltanum. Meðal sérfræðinga þáttarins eru Bjarni Þór, Eiður Smári, Margrét Lára og Logi Bergmann.
MATARBÍLL EVU
STÖÐ 2 – hefst 9. september
Eva Laufey ferðast um á merktum matarbíl, heimsækir bæjarfélög og heldur sína eigin matarhátíð. Hún fær hjálp heimafólks við að finna bestu hráefnin sem annaðhvort eru ræktuð eða framleidd á svæðinu. Hún heldur síðan veislu með bæjarbúum um kvöldið á hverjum stað.
GULLREGN
RÚV
Sjónvarpsþættir sem byggja á samnefndu leikriti og kvikmynd eftir Ragnar Bragason. Gullregn fjallar um kerfisfræðinginn Indíönu Jónsdóttur sem býr í lítilli blokkaríbúð umkringd innflytjendum sem hún hefur ímugust á. Í litlum garðskika við íbúðina stendur gullregn, verðlaunatré sem Indíönu er sérstaklega kært. Þegar sonur hennar kemur heim með kærustu af erlendum uppruna snýst veröld hennar hins vegar á hvolf
NÁTTÚRAN KALLAR
RÚV – hefst 28. október
Viðtalsþættir með Láru Ómarsdóttur þar sem hún ræðir við fjölskyldur sem hafa valið að búa og starfa í nálægð við náttúruna.
TÓNATAL
RÚV – hefst í október/nóvember
Matthías Már Magnússon fær til sín valda tónlistarmenn og fer yfir tónlistina í lífi þeirra í tali og tónum.
Í GÓÐRI TRÚ
RÚV – hefst 28 október
Nýir íslenskir heimildarþættir þar sem áður ósögð saga fyrstu vesturfaranna er sögð, íslenskra mormóna sem fluttu til fyrirheitna landsins í Utah-fylki Bandaríkjanna á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirra tuttugustu. Mormónatrú var á 19. öld álitin villutrú á Íslandi og máttu iðkendur hennar sæta ofsóknum af hendi yfirvalda fyrir trúarskoðanir sínar.
VEGFERÐ
STÖÐ 2 – hefst í desember
Saga tveggja karlmanna sem fara í ferðalag til þess að styrkja vináttubönd sín. Ferðalagið tekur óvænta stefnu sem reynir á vináttu þeirra og neyðir þá til að horfast í augu við eigin tilfinningar, karlmennsku og stolt. Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur Kristjánsson skrifa handritið og leika aðalhlutverkin og Baldvin Z leikstýrir.
Þá er fjöldi spennandi þátta á dagskrá Hringbrautar í haust- og vetur:
FRÉTTA- OG UMRÆÐUÞÁTTURINN 21
Þessi vinsæli þáttur verður áfram á dagskrá á Hringbraut í vetur, alla virka daga í umsjón Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Lindu Blöndal.
FJALLASKÁLAR ÍSLANDS
Ný þáttaröð um í umsjón Sigmundar Ernis verður á dagskrá í haust. Þáttasería þar sem náttúra Íslands leikur aðalhlutverkið og hafa þættirnir verið rómaðir fyrir þá fjölbreytni sem þar birtist af Íslandi, ekki síst hálendi Íslands.
SAGA OG SAMFÉLAG
Þættir í umsjón Björns Jóns Bragsonar halda göngu sinni áfram. Björn Jón fær til sín fræðimenn og aðra fróðari menn til að segja frá viðburðum og sögu sem er ekki á allra vitorði eða hreinlega gleymd.
Linda Blöndal gefur innsýn inn í sögu og lífið á Sólheimum í Grímsnesi sem fagnar 90 ára afmæli í ár.
LÍFIÐ ER LAG
Sigurður Kolbeinsson ræðir við eldri kynslóðina um lífsreynslu, minningar, áskoranir nútímans og framtíðina á efri árum.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir, hinn þekkti heilsufarsgúrú, sér um nýja þætti um hvernig má eldast sem best og eiga gott líf.
ÞÓRSMÖRK – FRIÐLAND Í 100 ÁR
Þættir þar sem Sigmundur Ernir fer um perlu landsins, norðan Eyjafjallajökuls.