fbpx
Fimmtudagur 06.febrúar 2025
Fréttir

Anna Karen lýsir skelfingarástandi á hjúkrunarheimili – Ofbeldi starfsmanns gegn sjúklingi var þaggað niður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 14:49

Anna Karen Sigurðardóttir. Mynd: danielh.studio

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástand á hjúkrunarheimilum á Íslandi er talið vera misjafnt og fréttaskýring DV um ástandið á hjúkrunarheimilinu Skjóli hefur vakið mikla athygli og óhug margra. Er þar lýst mikilli manneklu, meintu ofbeldi sem starfsfólk verði fyrir og yfirmenn sakaðir um skilningsskort á aðstæðum og þörfum íbúanna.

Sjá einnig: Starfsfólk á Skjóli lýsir ofbeldi og kynferðislegri áreitni

Anna Karen Sigurðardóttir birti um helgina áhrifamikinn pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hún lýsir reynslu sinni af starfi á hjúkunarheimili þar sem aðstæður voru óviðunandi. Dag einn mætti henni þar skelfileg sjón: Heilabilaður sjúklingur sat bundinn í hjólastól þó að hann þyrfti ekki að notast við hjólastól, og ástand hans var að öðru leyti skelfilegt, eins og frásögnin ber með sér:

„Það var eitt sinn er óreynd stúlka mætti í vinnuna.

Hún hafði nýlega hafið störf á ónefndu hjúkrunarheimili og var að mæta á morgunvakt.

Þegar hún hinsvegar gekk inn á deildina sína varð henni mjög brugðið, því að skjólstæðingur hennar sem var heilabilaður sat bundinn fastur í hjólastól frammi á gangi sem hann átti ekki einu sinni, hann þurfti ekki einu sinni að notast við hjólastól!.

 Hann grét og öskraði og veifaði höndunum í áttina að henni þegar hann sá mig, nei ég meina hana og hún hljóp til hans.

 Hlandbrunninn, í tvöfaldri bleyju og aðeins á nærbolnum sat hann grátandi og fastur í stólnum.

Hann hafði verið klæddur í náttslopp sem snéri öfugt, hálsmálið á sloppnum vísaði niður á bak og sloppurinn hékk yfir höfuðið á honum.

 Hann var ískaldur og hræddur.

 Stúlkan losaði manninn, þvoði hann og kom honum í hrein föt og hlý og krafðist svo svara frá starfsfólkinu sem hafði verið á vaktinni á undan.

 Svörin sem hún fékk var að hann væri bara oft svo erfiður á nóttunni, hann þyrfti svo mikla athygli og væri að rápa svo mikið. Hann ætti það til að verða reiður og þá gæti hann tekið upp á því að meiða starfsfólkið.

 Restina af vakt stúlkunar var þessi maður sem þurfti bara nándina og öryggið, hræddur.

Hann mundi ekki afhverju, en það skipti ekki máli. Hann hafði verið beittur alvarlegu ofbeldi.

Stúlkan lét yfirmenn vita af þessu og lét í sér heyra með að þetta væri ekki í lagi, en ekkert var gert.

 Það var aldrei neitt gert.

 Þessi maður var faðir, afi og jafnvel langafi einhvers!

Hann hefði allt eins getað verið afi þinn!

 Leyfið þessu að marinerast aðeins í kollinum á ykkur!

Er þetta eitthvað sem þið getið hugsað ykkur að þola?“

 

Fjársveltið jaðrar við að vera ofbeldi

Þrátt fyrir þessa skelfilegu reynslu hefur Anna Karen ákveðið að ílendast í umönnunargeiranum og leitast við að koma á umbótum í sínu vinnuumhverfi. „Ástandið er mjög misjafnt. En mér finnst jaðra við ofbeldi þetta fjársvelti og þessi vanræksla á andlegum þörfum fólks,“ segir Anna Karen en hún telur að þessir ágallar séu mjög útbreiddir, en hún hefur komið inn á mörg hjúkrunarheimili og kynnt sér starfsemi þeirra.

„En burtséð frá því þá eru víða líka rotin epli, fólk sem hefur starfað of lengi í þessu, eða hefur verið þjálfað upp í starfsumhverfi sem er ekki heilbrigt eða eðlilegt. Þar sem ég starfaði fyrst var skelfilegt ástand, ég hef aldrei upplifað annað eins. Þar ríkti líka fáfræði meðal starfsfólks, okkur var til dæmis kennt að koma ekki nálægt þessum eða hinum vegna þess að viðkomandi gæti slegið frá sér. En þá var um að ræða einstaklinga sem voru óöruggir og hræddir, ekki síst vegna þess að enginn gaf sér tíma til að vera hjá þeim, hugga þá og róa,“ segir hún og lýsir þarna vítahring sem skapast í kringum erfiða sjúklinga á hjúkrunarheimilum.

Hún bendir einnig á að stór hluti starfsfólks á hjúkrunarheimilum séu unglingar á aldrinum 17 til 20 ára. „Þetta eru krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og þetta er það sem mætir þeim! Þetta var það sem ég fékk á mig þegar ég byrjaði. Ég fékk vikuaðlögun og sú kona fór mjög hratt yfir og lét eins og ég ætti bara að vita hvað ég ætti að gera. Eftir viku bað ég um meiri aðstoð og því var svarað með andvarpi og því viðhorfi að ég væri þessi týpa,“ segir Anna Karen en hún hefur reynt að innleiða stefnuna Namaste Care inn í starfið. Það byggir meðal annars á því að rækta núvitund og slökun hjá íbúum hjúkrunarheimila.

„Þessi nálgun snýst um að veita fólkinu ró, núvitund og nánd. Setja ilmlampa inn á deildirnar, láta þau setjast í hægindastóla, nudda hendurnar og svo framvegis,“ segir hún.

Anna Karen segir að lítill skilningur hafi mætt þessu viðhorfi á umræddu hjúkrunarheimili. Hún hafi á endanum komið með sinn eigin ilmlampa.

„Það vaknaði hjá mér þörf fyrir að laga þetta skelfingarástand en ég lenti á veggjum hvar sem ég leitaði leiða. Fjármagnið var ekki til staðar og ég var ekki nógu menntuð eða marktæk til að taka þennan slag. „Kláraðu námið og komdu svo,“ voru meðal annars svör frá Alzheimer samtökunum þegar ég bar upp hugmyndir mínar að endurbótum á þessu sviði. Rödd óreynds starfsmanns á plani vóg ekki jafn mikið og ef 20 ára reynslubolti með einhverjar háskólagráður hefði sagt það sama.“

Hún segir jafnframt frá því að á hjúkrunarheimilinu þar sem hún starfaði hafi starfsmaður einu sinni slegið sjúkling. Var það mál þaggað niður og starfsfólki skipað að tala ekki um það.

 Gefandi starf í dagdeild

Anna Karen starfar núna hjá Dagdvölinni Röst hjá Hrafnistu, en það er starf sem hún tók sjálf þátt í að byggja upp og segir hún að það hafi verið afskaplega gefandi. Dagdvölina sækir fólk sem býr ennþá heima hjá sér.

„Við erum að stuðla að því að færa þessu fólki aukið sjálfstæði og meiri félagsskap svo það geti búið lengur heima hjá sér. Við reynum að vera vinir fólksins sem hingað kemur. Þetta er yndislegt starf, þetta er það sem ég vil gera og ég fann að þarna var ég komin á rétta hillu.“

Í því samhengi hvað mikilvægt sé að hlúa betur að starfsemi hjúkrunarheimila bendir Anna Karen á að þunglyndi meðal aldraðra sé algengt og vísbendingar séu um að það sé algengara hjá þeim sem búa á hjúkrunarheimilum. Í grein sem birtist á vef tímartsins Hjúkrun í sumar kemur meðal annars fram að hlutfall þunglyndis hjá íbúum hjúkrunarheimila sé talið vera 40%. Sláandi tölur.

https://www.facebook.com/karenina95/posts/10220276104766180

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Eldingu sló niður í Hallgrímskirkjuturn – „Þetta var mögnuð tilviljun“

Eldingu sló niður í Hallgrímskirkjuturn – „Þetta var mögnuð tilviljun“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Furðuleg sjón blasti við lögreglu í því sem átti að vera venjulegt útkall – Má hafa samfarir við barnakynlífsdúkkur og taka af því myndir?

Furðuleg sjón blasti við lögreglu í því sem átti að vera venjulegt útkall – Má hafa samfarir við barnakynlífsdúkkur og taka af því myndir?
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þessir fimm framhaldsskólar eru á leið í verkfall

Þessir fimm framhaldsskólar eru á leið í verkfall