fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

Henrý afhjúpar veruleika atvinnulausra: „Þú þorir helst ekki að svara dyrabjöllunni því það gæti verið stefnuvottur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 11:06

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég varð atvinnulaus var hótað að bjóða upp heimilið mitt, oft. Það lýsir sér þannig að þú þorir helst ekki að svara dyrabjöllunni því það gæti verið stefnuvottur eða sýslumaður. En þeir láta þá bara nágranna hafa stefnuna í staðinn svo þú mannar þig upp og ferð til dyra,“ skrifar Henrý Þór Baldursson forritari á Twitter.

Henrý hefur að undanförnu vakið athygli fyrir röð tísta um atvinnuleysi. Skrif hans tala inn í umræðu um atvinnuleysisbætur. Atvinnuleysi er nú tæplega 9% og á Suðurnesjum nálgast það 20%. Horfur eru á að atvinnuleysi muni aukast töluvert í vetur og margir verði atvinnulausir sem áður hafa ekki kynnst þeim veruleika.

Hluti stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar hefur haft uppi kröfur um að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Stjórnvöld og einhverjir fulltrúar atvinnulífsins hafa sagt að ef atvinnuleysisbætur hækki fari þær of nálægt lægstu launum og verði atvinnuletjandi. Stjórnvöld hafa einnig bent á að þau séu að verja miklum fjármunum til atvinnulausra meðal annars með hlutabótaleiðinni og einfaldlega með mikilli fjölgun atvinnulausra og þar með auknu fjármagni í bætur.

Henrý skrifar: „SA vill ekki að fólk sem missir störf núna hafi í sig og á, geti borgað reikninga, haldið heilsu, og verði tilbúnir þegar kemur að uppgangi. Nei nei, fólki á að líða illa og ganga illa svo það taki þeim kjörum sem næsti vinnuveitandi býður þeim í stóru leiðréttingu atvinnulífsins.“

Í öðrum áhugaverðum tístum bendir hann á hættuna á því að atvinnulausir einangrist:

„Það er ekki sniðugt að atvinnulausir einangrist. Ísland er þannig land að langflestir fá starf gegnum tengslanet. Íslenska atvinnuleysistryggingakerfið er eins og uppskrift að því að búa til öryrkja og langtímaatvinnuleysi. Allir sem hafa lent þarna og komist af eiga mitt respect

Þegar ég varð atvinnulaus þá einangraðist ég. Það er í 1. lagi erfitt að hitta fólk ef þú ert mjög kvíðinn og 2. að hittast á kaffihúsi bakaríi eða bar er bara of mikið bruðl. Helst ég hafi hitt fólk í sundi, sem var samt þrátt fyrir allt „munaður“ sem ég leyfði mér sjaldan“

Henrý gagnrýnir einnig hvernig Vinnumálastofnun bregst við ef atvinnulausir fá aðstoð hjá nákomnum:

„Það er einnig erfitt þegar hótað er að draga af þér bætur vegna þess að einhver nákominn lagði inn á þig pening. Talað um óútskýrðar tekjur. Ekkert af þessu hjálpar þér að komast af atvinnuleysisskrá. Þetta er bara mannskemmandi og gerir ekkert nema drepa niður sjálfsvirðingu“

Ennfremur skrifar hann:

„Þegar ég varð atvinnulaus var maður skikkaður á námskeið sem virtust öll ganga út á að kynna manni fyrir möguleikanum á að flytja úr landi. Þar sat 35 ára tveggja barna faðir við hlið 18 ára barns og fékk sömu ræðuna (og sömu bæturnar)“

Og síðan þetta:

„Það er erfitt að vera upplitsdjarfur, vel undir búinn, og hress í starfsviðtölum þegar þú sefur ekki á nóttunni af því að þú finnur að þú gætir í rauninni endað á götunni og norræna velferðarkerfið myndi bara yppa öxlum“

Atvinnulaus fyrir fjórum árum

Er DV hafði samband við Henrý Þór vildi hann lítið sem ekkert tjá sig um skrif sín, sagði að þau skýrðu sig sjálf. Aðspurður sagðist hann hafa verið atvinnulaus fyrir fjórum árum en væri með atvinnu í dag.

Hvað sem líður ágreiningi um hvort hækka eigi atvinnuleysisbætur eða ekki þá eru skrif Henrýs áhugavert innlegg inn í umræðu um atvinnuleysi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi