BBC skýrir frá þessu. Segir miðillinn að umhverfisverndarsamtök séu allt annað en sátt við þetta. Þau vara við ófyrirséðum afleiðingum á vistkerfið og að úr þessu verði til stökkbreyttar mýflugur sem verði ónæmar fyrir skordýraeitri.
Fyrirtækið Oxitec, sem stendur á bak við verkefnið, fullyrðir að engin áhætta felist í að sleppa mýflugunum lausuum. Allir vilji vernda fólk gegn sjúkdómum á borð við beinbrunasótt og zikaveirunni sem flugurnar geta borið með sér.
Yfirvöld veittu heimild til að sleppa 750 milljónum fluga lausum á tveimur árum og verður hægt að hefjast handa við það á næsta ári.
Samtökin International Center for Technology Assessment and Center for Food Safety telja að þetta sé of áhættusamt.
„Í ljósi allra þeirra vandamála sem landið okkar og Flórída glíma nú við – kórónuveiru, kynþáttamismunun, loftslagsbreytingar – hafa stjórnvöld eytt skattfé og úrræðum í Jurassic Park tilraun,“
sagði Jaydee Hanson, forstjóri samtakanna, að sögn National Post.
Erfðabreytta mýið er að sögn BBC af tegundinni Aedes aegytpi og hefur fengið heitið OX5034. Þessi tegund er þekkt fyrir að bera marga banvæna sjúkdóma með sér. Samkvæmt áætlun á aðeins að sleppa karldýrum lausum sem eiga síðan að parast við kvendýr en það eru bara þau sem stinga fólk. Við pörunina munu karldýrin sprauta skaðlegu prótíni með í kvendýrin en þetta prótín mun erfast til afkvæmanna og drepa þau áður en þau verða nógu gömul til að stinga fólk. Með þessu á að fækka flugunum.