Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, eru nokkrar missagnir í Kastljóssþætti þar sem fjallað var um mál barnaníðingsins Guðmundar Ellerts Björnssonar, sem og í frétt DV um þáttinn.
Rangt er að Guðmundur Ellert hafi brotið gegn börnum sem voru skjólstæðingar hans við störf hans hjá barnavernd, heldur misnotaði hann börnin í aðstöðu sem hann hafði til umráða í gegnum starfið. Rangt er einnig að hann hafi komið til starfa hjá barnavernd á ný eftir að hann var sýknaður af ákærum um kynferðisbrot í Héraðsdómi árið 2018. Hann kom ekki aftur til starfa. Guðmundur Ellert var síðan sakfelldur í Landsrétti í sumar og dæmdur í fimm ára fangelsi.
Varðandi fréttaflutning um að tilkynningar um afbrot Guðmundar Ellerts hafi ekki komist til skila, segir Regína: „Það kom ein tilkynning til Barnaverndar Reykjavíkur, árið 2008, en ekki margar tilkynningar og fór í gang ítarleg úttekt á þeirri tilkynningu og hvers vegna hún hafi ekki borist til réttra aðila. Fréttin sem var lesin upp í inngangi Kastljóss var röng og var send út yfirlýsing vegna þess, þegar árið 2018, og bað RÚV afsökunar á því á sínum tíma. Við höfum þegar sent ábendingu til RÚV í kvöld.“
„Við tökum þetta mál mjög alvarlega. Barnavernd Reykjavíkur fór í gagngera endurskoðun á skipulagi og verklagi eftir að þetta mál kom upp,“ segir Regína enn fremur.