fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

Þolendur barnaníðingsins Guðmundar Ellerts stíga fram – „Þetta mun fylgja mér út lífið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 27. ágúst 2020 20:25

Skjáskot af RUV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Syskinin Alex og Sjana Rut eru á meðal þolenda barnaníðingsins Guðmundar Ellerts Björnssonar, en hann var dæmdur fyrir alvarleg og langvarandi kynferðisbrot gegn þremur börnum, í Landsrétti í sumar, eftir að hafa verið ákærður fyrir brot gegn fimm aðilum, fjórum börnum og einum ungum pilti.

Guðmundur Ellert starfaði í fjöldamörg ár hjá Barnavernd Reykjavíkur og nýtti hann aðstöðu sem hann hafði í gegnum starf sitt til að brjóta gegn börnum. (Ranglega hefur verið staðhæft að Guðmundur Ellert hafi brotið gegn skjólstæðingum sínum í starfi hans hjá Barnavernd).  Tilkynning um brot hans sem gefin var starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur árið 2008 hans var ekki komið til skila og hélt Guðmundur Ellert áfram störfum  hjá barnavernd í langan tíma eftir það.

Guðmundur Ellert var síðan, eins og fyrr segir, sakfelldur í Landsrétti í sumar og dæmdur í fimm ára fangelsi.

Fram kom í Kastljósi að þau afbrot sem Guðmundur Ellert var sakfelldur fyrir voru ítrekuð og langvarandi og stóðu frá árinu 1998 til 2010. Einn þolandi hans var átta ára er ofbeldið byrjaði og því lauk ekki fyrr en hann var 13 ára.

Fram kom í Kastljósi að Alex reyndi að svipta sig lífi í kjölfar þess að Guðmundur Ellert var sýknaður í héraði. Hann segist vera á miklu betri stað í dag. „Maður missir von, það er ekkert annað,“ sagði Alex, aðspurður um hvaða áhrif þetta hefði haft á sig. „Kerfið er byggt á þeim grunni að það eigi að hjálpa fólki en það gerir það ekki. Ég er þokkalegur í dag og það hefur hjálpað að tala nógu mikið um þetta,“ sagði Alex.

Systir Alex er tónlistarkona, Sjana Rut, og sagðist hún hafa óttast að þetta hefði áhrif á tónlistarferil hennar. Sagði hún að þolendur væru hræddir við fórnarlambsstimpilinn og það fældi þá frá því að stíga fram. „En svo fór ég að hugsa að ég vildi ekki láta þennan mann eyðileggja fyrir mér, ég á alla framtíðina fyrir mér, og við eigum bæði hamingjuna skilið eins og allir þolendur,“ sagði Sjana Rut og hvatti þolendur kynferðisofbeldis til að stíga fram. Sjana Rut telur sig eiga bjarta framtíð en mikið verk sé að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. „Maður er alltaf í sjálfsvinnu og nýlega var ég greind með áfallastreituröskun á háu stigi, maður er enn að vinna sig út úr þessu.“

Alex sagðist hafa brotnað niður og sagt móður sinni frá ofbeldinu. Hún sagði föðurnum frá því auk þess að fara niður á lögreglustöð árið 2015, gefa þar upp kennitölu Alex og Guðmundar Ellerts og segja hvað væri í gangi. Alex var á þeim tíma ekki tilbúinn til að leggja fram kæru á hendur Guðmundi Ellert.

Systkinin hafa gert kröfur um skaðabætur á hendur borginni vegna ofbeldisins og þeirra mistaka sem urðu varðandi það að tilkynning um afbrot hans misfórst í kerfinu. Alex sagði í Kastljósi að peningar væru aukatriði í þessu sambandi en mikilvægast væri að fá afsökunarbeiðni augliti til auglitis. Systkinin hafa enn ekki verið beðin afsökunar vegna málsins.

Sjana Rut sagði einnig mikilvægt að Barnavernd Reykjavíkur bætti verkferla sína og sagðist hún telja að það væri verið að gera það.

Systkinin ræddu um það brostna traust sem ofbeldið hefði valdið. „Maður heldur alltaf að fullorðna fólkið viti betur,“ sagði Alex. Jafnframt kom fram í máli systkinanna að þessi lífsreynsla hefði gert þau nánari. Með mikilli sjálfsvinnu og hjálp ættu þau framtíðina fyrir sér, en: „Þetta mun fylgja mér út lífið og maður  lærir einhvern veginn að lifa með því,“ sagði Sjana Rut.

Þess má geta að Barnaheill er nú með landssöfnun undir yfirskriftinni „Hjálpumst að við að verja börn“. Framlög renna í sjóð sem vinnur gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Nánari upplýsingar má finna á Barnaheill.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi