fbpx
Laugardagur 28.desember 2024

Menningarannáll 2017: Blússandi góðæri, bókaskattur og #Metoo

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 31. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og öll önnur menningarár hefur 2017 verið ríkt af listrænum sigrum jafnt sem vonbrigðum, menningarpólitískum deilum og fagurfræðilegum átökum. Í menningarannál DV er stiklað á stóru á því helsta sem gerðist í listum og menningu á Íslandi árinu 2017. Fjórtán álitsgjafar úr ýmsum afkimum íslensks menningarlífs veittu álit við samantektina. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu ítarlegri vangaveltur álitsgjafanna birtast á menningarsíðu dv.is. Hér birtist samantekt DV á því allra markverðasta sem gerðist í íslensku menningarlífi á árinu sem er að líða.


Víkingur í meistaradeildina

Í janúar gaf Víkingur Heiðar Ólafsson út sína fyrstu plötu hjá virta þýska útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon, þar sem hann leikur etýður bandaríska tónskáldsins Phillip Glass. Þó að Víkingur hafi verið stór fiskur hér á landi í mörg ár má segja að nú hafi hann loksins komist upp í meistaradeildina á hinu alþjóðlega sviði klassískrar tónlistar. Platan fékk gríðarlega góðar móttökur, fékk frábæra dóma í mörgum helstum tímaritum heims, komst ofarlega á metsölulista í Evrópu og endaði á ófáum listum gagnrýnenda yfir bestu plötur ársins.

Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA og listunnandi, nefndi árangur Víkings á heimsvísu sem eitt það markverðasta í íslensku menningarlífi á árinu: „Víkingur Heiðar er að verða einn af þekktustu einleikspíanistum í heiminum og sló sannarlega í gegn á árinu með flutningi á verkum Philips Glass fyrir Deutsche Grammophon. Víkingur spilaði á árinu í mörgum af helstu stórborgum heims og ég var svo heppinn að fá að sjá hann í Elbsphilarmonie í Hamborg, magnaður flutningur í mögnuðu tónlistarhúsi.“


Mynd: Hörður Sveinsson

Bölvað Gott fólk

Í upphafi ársins fór fram nokkur umræða um réttmæti þess að nota fréttir úr íslenskum samtíma, raunir og opin sár raunverulegra einstaklinga sem innblástur fyrir skáldskap, þegar leikgerð Þjóðleikhússins á skáldsögu Vals Grettissonar, Gott fólk, var frumsýnd. Verkið fjallar um ásakanir um kynferðisofbeldi og það hversu langt hópar fólks geta gengið í leit sinni að réttlæti utan hins hefðbundna réttarkerfis. Einn málsaðali, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Haukur Már Helgason, leitaði einnig óhefðbundinna leiða í fordæmingu sinni á verkinu og ritaði pistil á menningarvefritið Starafugl þar sem hann kvaðst hafa lagt bölvun á það.

Með bölvuninni endurvakti hann umræðuna um verkið og á internetinu gagnrýndu málsaðilar Val og Þjóðleikhúsið. Rás 1 brást við, frestaði og breytti flutningi fyrirhugaðrar útvarpsseríu um leikritið og margir mættu á pallborðsumræður sem voru haldnar í Háskóla Íslands tengdar verkinu.


Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Myndlistarsenan eignast heimili

Í mars var opnuð ný miðstöð fyrir íslenska myndlist í gamalli síldarbræðslu frá 1948 á Grandanum í Reykjavík. Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson hjá Kurt og Pí höfðu frumkvæði að verkefninu og endurhönnuðu þeir bygginguna og hýsir það nú Nýlistasafnið, Kling og Bang auk stúdíós og sýningarrýmis Ólafs Elíassonar. Byggingin er orðin að nýjum miðpunkti íslensku myndlistarsenunnar og nefna margir álitsgjafar DV opnun hússins sem eitt það markverðasta í menningarlífinu á árinu. „Opnun Marshallhússins á fyrri hluta ársins ber einna hæst á myndlistarsviðinu og reyndar í menningarflórunni almennt. Það er kraftur í byggingunni og starfsemin er hinn eiginlegi hljómbotn mannlífsins á Grandasvæðinu,“ segir Birta Guðjónsdóttir.

Umbreyting og hönnun hússins hefur fengið mikið lof og hlaut til að mynda Hönnunarverðlaun Íslands. Guðni Valberg arkitekt nefnir einnig hvernig húsið gæti haft áhrif á borgarmyndina „Svo er bara að vona að húsinu takist að verða nógu sterkt akkeri til að stækka miðbæinn alveg út í Örfirisey, en það er enn dálítið slitið frá bænum. Nú er í bígerð að opna nýja mathöll í Sjávarklasanum og með enn frekari menningaruppbyggingu á austanverðum Grandanum ásamt nýrri uppbyggingu við Vesturbugt verður til samfelld lifandi miðbæjarstarfsemi allt frá Örfirisey að Hlemmi, og jafnvel alveg austur í Skeifu með tíð og tíma.“


.# METOO-menningarbylting

Þó að það ofbeldi, valdamisnotkun og allt of hversdagslega áreitni sem konur hafa risið upp gegn í hreyfingunni sem kennd er við #metoo sé ekki bundin við skemmtanaiðnaðinn og listheiminn sprettur byltingin fyrst upp úr honum. Þar hefur hreyfingin haft hvað mest áhrif og umræðan fundið sér vettvang. Hér á landi risu konur í fjölmörgum stéttum upp og sögðu sínar sögur af ofbeldi og áreitni. Borgarleikhúsið varð að vettvangi fyrir samtalið og voru allar sögurnar sem birst höfðu í fjölmiðlum lesnar upp á stóra sviðinu fyrir fullum sal af fólki.

„Femínismi er augljóslega sigurvegari árins 2017 á Íslandi. #Metoo-herferðin hér heima og erlendis, og allt það sem hefur gerst í kjölfarið, mun breyta Íslandi og heiminum um ókomna tíð. Ég er sannfærður um þetta,“ segir Alexander Roberts sviðslistamaður og Sjón tekur í svipaðan streng: „Metoo-hreyfingin er menningarbylting sem yfirskyggir allt annað sem gerðist árið 2017 og fellur undir orðið menning.“

Í kjölfar þessarar byltingar hefur listheimurinn þurft að leggjast í sjálfskoðun og endurskoða gagnrýnislausa upphafningu sína á sérlunduðum snillingum og hið mikla valdamisræmi sem oft einkennir bransann. Eins og erlendis hefur nokkrum karlmönnum verið sagt upp hjá menningarstofnunum eða þeir tekið pokann sinn í kjölfar ýmiss konar ásakana. Hér á landi var Atla Rafni Sigurðarsyni sagt upp viku fyrir frumsýningu í Borgarleikhúsinu, Stefán Jónsson og Stefán Hallur Stefánsson sögðust taka móralska ábyrgð og hættu kennslu við sviðslistadeild LHÍ, og þá var Darren Foreman rekinn frá Kvikmyndaskóla Íslands.

Álitsgjafar DV virðast þó flestir vera sammála um að samtalinu sé langt frá því lokið. „#MeToo opnaði hurð en nú er það bara að taka næsta skref inn um dyrnar. Íslenska senan þarf að byggja upp nýjan grunn með trausti, fjölbreytileika og samvinnu,“ segir Dýrfinna Benita listakona.

Þau eru svo ófá listaverkin sem hafa fengist við svipuð málefni á undanförnum árum og mánuðum eða geta verið túlkuð í því samhengi. María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri hönnunartímaritsins HA magasín, nefnir þannig vegglistaverk Elínar Hansdóttur á Réttarholtsskóla sem eftirminnilegasta listaverk ársins: „Einfalt og sterkt verk sem fellur svo fallega að #metoo og #höfumhátt hreyfingunni sem hefur sýnt og sannað að lítil rödd getur haft mikil áhrif.“


Ragnar skálar fyrir velferð og velgengni

Ragnar Kjartansson hefur verið sérstaklega áberandi á árinu, ekki bara í myndlistinni heldur einnig sviðslist og pólitík. Yfirlitssýning Ragnars í Listasafni Reykjavíkur, Guð, hvað mér líður illa, er sá listviðburður sem var oftast nefndur af álitsgjöfum DV í ársuppgjöri þeirra. Stefán Baldursson, fyrrverandi þjóðleikhús- og óperustjóri, segir sýninguna til að mynda hafa verið skemmtilegasta menningarviðburð ársins: „Ánægjulega frumlegur og uppátækjasamur hendir Ragnar fram óvæntum hugmyndum sem hrista upp í okkur en sækir þó allt í hina einu og sönnu listataug í eigin brjóst.“ María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri HA magasín, segist sjá eftir því að hafa ekki farið oftar en þrisvar að sjá hana: „Sýningin var góð áminning um mátt endurtekningarinnar og jók á skynjun mína á fegurð rútínunnar og gerði mér gott.“

Dansverk Ragnars og Margrétar Bjarnadóttur, No tomorrow, var valin sýning ársins á Grímunni – en hún var hluti af Fórn, hinu kynngimagnaða risasviðslistaverki Íslenska dansflokksins.

Eins og í tveimur síðustu þingkosningabaráttum kom Ragnar Kjartansson inn í umræðuna á síðustu stundu með stuttum grínlegum áróðursmyndböndum merkt „skrímsladeildinni“ til stuðnings Vinstri grænum. Ásgeir Ingólfsson, skáld og menningarrýnir, nefnir eitt þessara myndbanda eftirminnilegasta listaverk ársins: „Bestu listaverkin verða stundum stærri en listamaðurinn – og afhjúpa jafnvel eitthvað sem honum er sjálfum hulið. Besta dæmið um slíkt í ár er myndband Ragnars Kjartanssonar fyrir síðustu kosningar,“ segir Ásgeir. Myndbandið, þar sem kampavínsskálandi og smókingklæddur Ragnar ímyndar sér í gríni framtíð þar sem Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur vinna að velferð fólksins í landinu, hafði kaldhæðnislegt forsagnagildi en samflokksmenn Ragnars, Vinstri græn, skáluðu í kampavíni, þegar samið hafði verið um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar þeirra með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.


Við borgum (loksins) myndlistarmönnum

Undanfarin ár hefur Samband íslenskra myndlistarmanna gagnrýnt að listamenn fái ekki þóknun né útgjöldum þeirra mætt þegar settar eru upp sýningar á verkum þeirra í opnberum söfnum. Áfangasigur vannst í baráttunni, sem hefur verið háð undir yfirskriftinni Við borgum myndlistarmönnum, þegar borgarráð veitti Listasfni Reykjavíkur viðbótarframlag til að greiða listamönnum.

„Snemma á árinu voru kjör og staða listamanna rædd á þingi og það rætt út frá átaksverkefni SÍM, Við borgum myndlistarmönnum, sem vakti marga til umhugsunar um mat á og afstöðu til starfsframlags listamanna og stöðu þeirra neðst í lífkeðju listanna,“ segir Birta Guðjónsdóttir.

Yean Fee Quay, verkefnastóri við Listasafn Reykjavíkur, nefnir þetta sem eitt það markverðasta í íslensku menningarlífi á árinu: „Þetta er stórt stökk fram á við, sem Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, er upphafsmaðurinn að, og skref í átt að þeirri fagmennsku sem margir myndlistarmenn eiga að venjast í öðrum borgum.“


Mynd: Ben Gruber

Pönkbylgja í tölvuleikjagerð

Það tóku eflaust einhverjir eftir því að risinn í íslenska tölvuleikjaheiminum CCP tilkynnti á fyrri hluta ársins um besta afkomuár fyrirtækisins frá stofnun, en fyrirtækið skilaði 21,5 milljóna dollara hagnaði árið 2016. Það var hins vegar ekki síður merkileg sú sprenging sem varð í íslensku tölvuleikjagrasrótinni.

„Oft er sagt að pönkið sé dautt, en sama er ekki hægt að segja um pönk tölvuleikjageirans. Ég vildi að ég gæti valið einhvern einn leik sem leik ársins, en það sem hefur heillað mig hvað mest á þessu ári er ekki endilega leikirnir sjálfir, heldur frekar magnið og fjölbreytileikinn. Í ár gerðist nefnilega eitthvað merkilegt sem olli því að „pönk-tölvuleikjahönnun“ sprakk út og óx margfalt á við síðustu ár. Maður var vanur að sjá undir 5 leiki á ári í það mesta, í ár erum við að tala um marga tugi,“ segir Jóhannes Gunnar Þorsteinsson, tölvuleikjasmiður og einn álitsgjafa DV, og nefnir sérstaklega leikjasmiðjur Samtaka leikjaframleiðanda, IGI, sem ástæðu fyrir gróskunni.


Bókaskattur og framtíð íslenskunnar

Í ár hefur mikið verið rætt um stöðu og framtíð íslenskunnar. Flestir virðast sammála um að hinum stafræna og snjalltækjavædda samtíma fylgi hættur fyrir íslenska örmálsvæðið. Bóklestur minnkar og í staðinn dvelur fólk æ stærri hluta dagsins í ýmsum snjalltækjum með erlent viðmót. Krafan um aðgerðir jukust í aðdraganda kosninga og í stjórnarsáttmála sínum svöruðu nýju ríkisstjórnarflokkarnir kallinu, annars vegar með loforði um aðgerðáætlun til að gera íslenska tungu gjaldgenga í stafrænum heimi og hins vegar afnámi virðisaukaskatts á bækur. Reyndar sáust þess engin merki í fyrsta fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar og bókmenntafólk þurfti að draga í land með lofsyrði sem þau höfðu látið falla í garð Lilju Alfreðsdóttur og Framsóknarflokksins.

Nokkrir álitsgjafar DV nefna þetta sem helstu umræðu ársins á sviði menningarinnar. Silja Aðalsteinsdóttir segir þá tilkynningu nýrrar ríkisstjórnar að afnema virðisaukaskatt á bókum vera þá markverðustu á árinu: „Ég fyrirgef stjórnvöldum aldrei ef þau standa ekki við þetta loforð. Að skattleggja bókaútgáfu á einum minnsta bókamarkaði heimsins er eins og að leggja tekjuskatt á framlög til björgunarsveita,“ segir Silja.

Stefán Baldursson er á svipaðri línu og segir þetta hafa verið tvær ánægjulegar menningarpólitískar ákvarðanir. „Annars vegar niðurfelling á virðisaukaskatti á bækur sem er löngu tímabær. Eitthvað babb virðist hafa komið í bátinn á síðustu dögum en vonandi dregst ekki úr hömlu að hrinda þessu í framkvæmd. Hitt er hin ánægjulega ákvörðun stjórnvalda að koma íslensku í öll stafræn samskiptatæki og veita til þess 450 milljónum á næsta ári. Við erum í gríðarlegri hættu á að þjóðin tapi niður móðurmáli sínu ef ekki er gripið til róttækra aðgerða. Þessi ákvörðun er ein þeirra og getur skipt sköpum fyrir þjóðarheill.“


Trollað í Feneyjum

Á myndlistarsviðinu hefur verið gróska í gjörningum og leikrænni listsköpun. Verk Egils Sæbjörnssonar á Feneyjavíæringnum var þannig uppfullt af leik og lífi. Hann tilkynnti með viðhöfn að það væri ekki hann sjálfur heldur tröllin Ūgh og Bõögâr sem myndu sjá um listsköpunina. Þetta leikrit skilaði sér svo í verkum í ýmsum miðlum og formum: þarna voru myndbands-skúlptúrar, skartgripir, ilmvatn, tónlist, samfélagsmiðlaglens og svo framvegis.

Birta Guðjónsdóttir, myndlistarkona og sýningarstjóri, segir vinsældir og velgengni Egils í Feneyjum hafa verið eitt af því sem stóð upp úr á myndlistarsviðinu á árinu: „Sýning hans þar var valin ein af fimm eða tíu áhugaverðustu sýningum tvíæringsins af helstu listmiðlum heims. Hún dró að sér mikinn fjölda gesta og er enn einn siguráfanginn í ferli Egils, og eykur auk þess hróður annarra íslenskra myndlistarmanna.“


Tónlistarsenan flutt til LA

Áhugi heimsins á Íslandi er ekki bara bundinn við náttúruna sem skýtur kollinum ennþá reglulega upp í kvikmyndum og sjónarpsþáttum. Áhuginn á íslenskri list utan landsteinanna virðist heldur ekkert vera að minnka. Í vor var til að mynda haldin vegleg listahátíð tileinkuð íslenskri tónlist á vegum fílharmóníu Los Angeles-borgar. Krútt- og klassískutónlistarsenu landsins var flogið út á einu bretti og vakti hátíðin mikla athygli.

Stefán Baldursson, fyrrverandi þjóðleikhús- og óperustjóri, nefnir hátíðina sem eitt það merkilegasta sem átti sér stað í íslensku listalífi á árinu: „Einn merkasti tónlistarviðburður ársins var umfangsmikil kynning á íslenskri tónlist í Los Angeles þar sem fleiri tugir íslenskra tónlistarmanna fluttu íslenska tónlist með hið fjölhæfa tónskáld og hljómsveitarstjóra Daníel Bjarnason í fararbroddi.“


Rappbomban neitar að springa

Rapp er ekki lengur bara blómleg jaðarsena heldur er það orðið að kóngi íslenskrar popptónlistar. Íslensku tónlistarverðlaunin, sem höfðu algjörlega litið framhjá hip-hop bylgjunni í fyrra, verðlaunuðu nú Emmsjé Gauta með fimm styttum og var hann óumdeildur sigurvegari verðlaunanna. Eitt allra vinsælasta lag ársins var svo sumarsmellurinn B.O.B.A. með nýstirnunum JóaPé og Króla – lag sem leikskólabörn jafnt sem ömmur þeirra kunna utanbókar.

Þeir síðarnefndu eru hluti af nýrri kynslóð rappara sem hafa alist upp við að hlusta á íslenskt rapp til jafns við erlent. Þökk sé æ öflugri fartölvum, ódýrum hljóðvinnsluforritum og youtube-kennslumyndböndum geta krakkar lært að smíða takta og tekið upp rapp í herbergjum sínum og látið hljóma eins og margt af því besta í alþjóðlegu hip-hopi. Sjónræna umgjörðin og upplifunarhönnunin utan um tónlistina skiptir svo æ meira máli á meðan færri hafa áhuga á að gefa út á efnislegu formi.


Fjölbreyttara skemmtanalíf

Á undanförnum árum hefur skemmtanalíf Reykjavíkurborgar orðið æ fjölbreyttara og má segja að hálfgerður jaðarskemmtanaiðnaður hafi orðið til á öldurhúsum og knæpum miðborgarinnar. Hinar ýmsu sviðslistir sem ekki komast fyrir í virðulegum menningarstofnunum hafa fundið sér stað og laða að gesti kvöld eftir kvöld: Spunaleikhópar, uppistand, sirkus, kabarett-kvöld, börlesk-skemmtanir, ljóðagleðihús, þátttökubíó, drag-keppnir og svo framvegis.

Brynja Pétursdóttir, danskennari, og einn álitsgjafi DV, nefnir þessa þróun sérstaklega sem einkennandi þróun í íslensku menningarlífi: „Mér finnst gaman að sjá nýja viðburði poppa upp í Reykjavík, þegar eitthvað fer út fyrir kassann eins og sirkus, kabarett og dragsýningar. Sem betur fer er uppistand löngu farið að blómstra líka. Fyrir mér þá gerir þetta lífið mun bærilegra, það að geta hoppað á skemmtilega sýningu í borginni minni er alveg nauðsynlegt. Við hentum okkur í þetta og höldum nú árlega street-danssýningu sem vonandi bætir bara við nú þegar spennandi og ört stækkandi menningardagatal borgarinnar. En þetta tel ég vera mikilvægt fyrir samfélagið okkar, við þurfum að hittast, skemmta okkur saman, kynnast nýjum hlutum og stækka sjóndeildarhringinn.“


Miðborg í mótun

Miðborg Reykjavíkur er að taka gríðarlega miklum breytingum um þessar mundir og sitt sýnist hverjum. Eftir mikla lægð í nýbyggingum eftir hrun eru nú allir byggingakranar í notkun, aldrei hefur verið byggt jafn mikið og jafnt hratt – nýjar byggingar spretta upp eins og gorkúlur. Í takt við hugmyndafræði og hugsjón borgaryfirvalda um þéttari byggð eru nýjar byggingar að rísa á öllum auðum reitum miðsvæðis frekar en í jöðrum borgarinnar. Samhliða þessu hefur mikill fjöldi ferðamanna þau áhrif að miðborgin vex og vex, frá Granda og upp að Hlemmi.

Guðni Valberg arkitekt segir umræðu um þessar breytingar og ásýnd hinnar nýju miðborgar hafa verið sérstaklega áberandi í ár: „Umræðan um það hvernig borg við viljum byggja og búa í hefur líklega aldrei verið eins mikil eins og nú og þar eru gjarnan tveir mjög ólíkir pólar sem takast á, sérstaklega þegar kemur að þéttingu byggðar og samgöngumálum. Fólk var að taka umræðuna um Víkurgarð, Hafnartorg, gamla Iðnaðarbankann á Lækjargötu, Landspítalann, Laugaveg 4–6, Sundhöllina, Gamla Garð og fleiri byggingaráform og sitt sýnist hverjum um útlit og skipulag.“


Allir í bíó

Íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð er á góðri siglingu þó að engin risaverðlaun hafi skilað sér til íslensku myndanna í ár. Sjónvarpsþáttaröðin Fangar á RÚV hélt Íslendingum föngum og þeir flykktust svo í bíó í tugþúsundum að sjá hryllingsmyndina Ég man þig, byggða á bók Yrsu Sigurðardóttur og kolsvarta dramað Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson.

Þó að færri hafi séð frumraun Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Hjartastein, er hún hins vegar sú mynd sem hefur hlotið hvað mesta hylli hjá dómnefndum verðlaunahátíða: 45 alþjóðleg verðlaun og níu verðlaun á Eddunni. Jóhann Helgi Heiðdal heimspekingur nefnir myndina sem eftirminnilegasta listaverk ársins: „Hún brýtur svo sem ekki nein blöð í frumleika, og er einnig aðeins of löng miðað við efnið. En magnaður leikurinn er mjög eftirminnilegur, ásamt fallegri myndatöku. Frábær notkun á íslenskri tónlist einnig. Þetta er auðvitað að verða mjög þreytt í íslenskri kvikmyndagerð: allar þessar myndir um vesælt líf í íslenskum sjávarþorpum. En Hjartasteinn gerir það mjög vel og er kannski sú besta af þeim myndum.“


Skáldið þagnar

Sigurður Pálsson skáld féll frá í september úr krabbameini í brjósthimnu. Andlát Sigurðar varð fjölmörgum ástæða til að rifja upp góð kynni sín af skáldinu sem hafði mikil áhrif á fjölmarga samferðamenn sína og nemendur. Þrátt fyrir að þetta mikla skáld þagni lifir ljóðið góðu lífi á Íslandi þessa dagana og sækir raunar í sig veðrið.

„Í haust misstum við okkar helsta ljóðskáld, Sigurð Pálsson, en allt það unga fólk sem er að gefa út bækur og tímarit, skipuleggja upplestra og rappkvöld er lifandi staðfesting þeirrar trúar á mátt skáldskaparins sem hann boðaði í skrifum sínum, kennslu og lífi,“ segir rithöfundurinn Sjón og segir uppgang ljóðsins alltaf vera undanfara stórra tíðinda í bókmenntunum.

Ásgeir Ingólfsson, skáld og menningarrýnir, nefnir andlát Sigurðar einnig sem þann atburð sem hafði hvað mest áhrif á hann á árinu: „Árið sem leið verður alltaf fyrst og fremst árið sem ég stoppaði á bensínstöð einhvers staðar í Mývatnssveit og komst að því að Sigurður Pálsson var látinn. Ég minnist ekki að hafa upplifað jafn sterk viðbrögð við dauða neins íslensks listamanns síðan Kiljan dó – sem var bæði til marks um magnaða orðkynngi hans og það hversu djúpstæð áhrif hann hafði á alla sem hann kynntist, jafnvel þegar kynnin voru lítil og takmörkuð. En nú var þessi rödd þögnuð, þetta kankvísa bros myndi aðeins lifa á myndum og bene bene aðeins heyrast í vanmáttugri endursögn.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari


Hverfandi listagagnrýni

Erfitt rekstrarumhverfi hefðbundinna fjölmiðla virðist enn vera að koma niður á gagnrýnni umræðu um listir og menningu. Þó að sérhæfðir netmiðlar reknir fyrir lítinn eða engan pening spretti reglulega upp einbeita þeir sér fæstir að gagnrýni.

„Ekki er skrifuð regluleg gagnrýni um myndlistarsýningar nema í eitt dagblað á landinu, og í sjónvarpi, upplagðasta vettvangi fyrir myndlistargagnrýni, hefur varla verið sagt krítískt orð um myndlist síðan Djöflaeyjan á ríkissjónvarpinu var lögð niður,“ segir Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og einn álitsgjafa DV.

Ásgeir Ingólfsson, skáld og menningarrýnir, tekur í sama streng: „Þetta var enn eitt árið sem menningarrýni átti undir högg að sækja – ekkert verra en mörg undanfarin ár kannski, en samt tímanna tákn þegar einn afdráttarlausasti gagnrýnandi landsins, Sindri Eldon, fann sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar á eigin afdráttarleysi – og allir klöppuðu. Þangað er gagnrýnin á Íslandi komin – hún er í dauðateygjunum og það klappa allir þegar gagnrýnandi deyr.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þorbjörg Sigríður um mál Helga vararíkissaksóknara – „Svona getur þetta auðvitað ekki gengið“

Þorbjörg Sigríður um mál Helga vararíkissaksóknara – „Svona getur þetta auðvitað ekki gengið“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Missti hausinn algjörlega eftir atvikið umtalaða í gær – Sjáðu hvað gerðist

Missti hausinn algjörlega eftir atvikið umtalaða í gær – Sjáðu hvað gerðist
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gunnar Smári segir að neyða ætti auðmenn sem stefndu blaðamanni Samstöðvarinnar til að ganga í bolum merktum „skítapakk“

Gunnar Smári segir að neyða ætti auðmenn sem stefndu blaðamanni Samstöðvarinnar til að ganga í bolum merktum „skítapakk“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Amorim: „Getur aldrei liðið þægilega í starfi“

Amorim: „Getur aldrei liðið þægilega í starfi“
Pressan
Fyrir 18 klukkutímum

MAGA-hreyfingin sýpur hveljur eftir umdeild ummæli Musk

MAGA-hreyfingin sýpur hveljur eftir umdeild ummæli Musk
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur
Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

Ellý spáir fyrir Katrínu Jakobsdóttur – „Hún á eftir að vinna eitthvað á bak við tjöldin hér heima“

Ellý spáir fyrir Katrínu Jakobsdóttur – „Hún á eftir að vinna eitthvað á bak við tjöldin hér heima“
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Víkingur fær hvorki að spila á Íslandi né í Færeyjum – Kaupmannahöfn kemur til greina

Víkingur fær hvorki að spila á Íslandi né í Færeyjum – Kaupmannahöfn kemur til greina