Myndbirting á Facebook varð til þess að 50 ára gamalt morðmál leystist og morðinginn fékk makleg málagjöld. Það var árið 1968 sem Paul Booth, 19 mánaða, var myrtur en morðingi hans hélt um ökkla hans og sveiflaði honum og barði höfði hans utan í arinn á heimili Booth í Haverton Hill í Stockton á Englandi.
Eldri bróðir Paul, Peter, var aðeins þriggja ára þegar þetta gerðist en hann var vitni að morðinu. Hann hafði læðst niður til að fá sér að drekka og sá þá þegar bróðir hans var myrtur. Eftir að hann sá ljósmynd á Facebook 2015 sneri hann sér til lögreglunnar og skýrði frá þeirri vitneskju sem hann bjó yfir. Á myndinni sat Paul á hné David Dearlove, stjúpföður þeirra bræðra. Það var einmitt David sem myrti Paul.
Hann neitaði sök fyrir dómi og sagði að Paul hefði dottið út úr rúmi sínum. David, sem var handtekinn 2017, sjötugur að aldri, var dæmdur í ævilangt fangelsi síðar það sama ár. Einnig var kveðið upp úr um að hann eigi ekki möguleika á reynslulausn fyrr en 2031 ef honum endist aldur. Hann var sakfelldur fyrir morð og þrjú ákæruatriði til viðbótar er varða ofbeldi gegn börnum.
Þegar saksóknari spurði David út í málið sagði hann að dauði Paul hafi ”líklegast verið óþægilegur atburður” en að hann gæti ekki munað hvernig honum leið þegar þetta gerðist. David var að gæta Paul kvöldið örlagaríka. Hann fór með móður Paul á sjúkrahúsið þegar Paul var fluttur þangað meðvitundarlaus. Hann lést fjórum klukkustundum eftir að hann kom á sjúkrahúsið og komst aldrei til meðvitundar. Brunablettir og margskonar áverkar fundust á Paul og barnaverndaryfirvöld höfðu áður lýst yfir áhyggjum af ástandi mála á heimilinu en samt sem áður var David ekki ákærður á sínum tíma.
Sky-fréttastofan segir að þegar dómur var kveðinn upp hafi David ekki sést sýna nein svipbrigði en ættingjum hans, sem voru í dómssal, hafi verið brugðið.
Verjandi hans sagði að dómari ætti að taka tillit til þess að David hefði lifað gjörsamlega flekklausu lífi í 50 ár eftir morðið. Hann hefði kvænst og eignast tvær dætur.