Lengi hefur verið knattspyrnuvöllur á skólalóð Ísaksskóla en árið 2018 var settur upp svokallaður battavöllur. Það er völlur með girðingum svo boltinn fari ekki út af vellinum. Yfirleitt eru battavellir á Íslandi með timbri í kringum völlinn en þessi er með girðingu úr málmi. Það hefur framkallað meiri hávaða en gengur og gerist.
Frétt Morgunblaðsins af málinu hefur vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter. Reiði fólks beinist ekki síst að konunni sem kvartaði undan vellinum. Hún er meðal annars kölluð „kelling“ og eldra fólk sagt vera „sálarlaust“ þegar kemur að börnum að leik.
Lesa meira: Fúkyrðum rignir yfir konu eftir frétt Morgunblaðsins – Börnin ekki vandamálið
Hörður Ágústsson er einn þeirra sem tjáir sig um málið á Twitter. „Ég er ekki endilega hrifinn af því að hún sé tekin af lífi fyrir að vera pirruð,“ segir Hörður en heldur þó áfram. „En þessir krakkar. Grátandi eftir að skólinn byrjar aftur. Hefnið ykkar! Það þarf að benda þessum krökkum á að það er enn hægt að gera dyraat árið 2020.“
Fleiri taka í sama streng og Hörður með hefndaraðgerðir. Steingrímur nokkur segir að hann sé að pæla í því að mæta á svæðið með körfubolta næstu kvöld og æfa sig í að dripla, líklegast til að framkvæma hávaða. Þór nokkur segir þá að hann sé líka með hugmyndir um hefndir. „Strákurinn minn var að byrja í Ísaksskóla. Spurning hvort maður eigi ekki að sponsora lúðrasveit? Sýnist plássið þarna vera prime fyrir útiæfingar…“
Ólafur Örn Ólafsson, stjörnukokkur og veitingamaður, er líka ósáttur. „Þessi kona er víst vandamálið, sonur minn 11 ára er eitt af þeim börnum sem er búinn að vera að spila fótbolta þarna um miðjan dag um mitt sumar og hún er búin að hringja á lögguna nokkrum sinnum til að láta stöðva það,“ segir Ólafur. „Ég er brjálaður fyrir hönd krakkanna sem hafa verið þarna.“
Stefán Pálssson sagnfræðingur segist hafa upplifað það sama og Ólafur. „Ég á ellefu ára strák. Þessir nágrannar sendu lögregluna tvisvar sinnum til að stoppa hann og félaga hans í að spila fótbolta þarna vegna hávaða. Klukkan tvö á virkum degi í júlí,“ segir Stefán.
Sonur konunnar segir þetta ekki vera rétt hjá Ólafi og Stefáni, að minnsta kosti hefur móðir hans aldrei hringt á lögregluna vegna barna ssem eru að leika sér. Einungis hefur lögreglan verið kölluð til þegar hávaðinn er eftir miðnætti og einu sinni um miðjan dag. Hann segir að þá hafi þó verið eldri krakkar en 11 ára að leika sér, þeir hafi verið með hátalara, spilað mjög háa tónlist og ekki virt vinsamlegar ábendingar um að lækka aðeins í tónlistinni.
DV heyrði í syni konunnar fyrr í dag en hann furðaði sig á því að fólk væri svona orðljótt í garð móður sinnar. Hann sagði að það væri enginn að kvarta yfir krökkunum, þeim finnst frábært að búa svona nálægt skólalóðinni og í nágrenni við krakkana. Krakkarnir eru kurteisir og skemmtilegir, vinka þeim hæ og spjalla við þau. Hann segir, líkt og móðir sín, að vandamálið komi frá eldri krökkum og ekki síst fullorðnu fólki sem notar völlinn á kvöldin.