Vestfirski fréttamiðillinn BB.is greinir frá því í dag að Norway Royal Salmon, sem meðal annars á helmingshlut í Arctic Fish á Vestfjörðum hafi skilað hagði sem nemur 120 milljónum norskra króna, sem er í íslenskum krónum talið um 1,9 milljarður.
Segir vefurinn frá því að framleiðsla norska fiskeldisrisans hafi aukist um 59% frá því á sama tíma í fyrra og selt um 18% meira. Verð á eldislaxi lækkaði aðeins um 7% frá því Covid-19 faraldurinn hófst og má það teljast nokkuð gott í samhengi verðlags annarra afurða.
BB segir jafnframt frá því að lífmassi í sjó hafi aukist umtalsvert eða um fjórðung frá því á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu til norsku kauphallarinnar kemur fram að Arctic Fish sé nú loks farið að skila hagnaði, og sé ekki lengur í uppbyggingarfasa. Hagnaður af Arctic Fish hafi verið um 42 milljónir á 2. ársfjórðungi, samaborið við 20 milljóna tap í fyrra.
Arctic Fish reka fiskeldisstöðvar í Patreksfirði og í Dýrafirði og seiðaeldisstöð á Tálknafirði. Skrifstofur félagsins eru á Ísafirði.