Andri Heimir Vignisson er afar ósáttur og harmi sleginn eftir að hundstík hans drapst vegna rangrar lyfjagjafar hjá Dýraspítalanum í Víðidal. Andri fór með dýrið í tannhreinsun og tanntöku og þurfti að svæfa tíkina. Hún fékk síðan verkjalyf eftir aðgerðina en upplýsingar um magn voru rangar. Ástæðan er sú að aðstoðarmaður dýralæknisins fékk fyrirmælin ekki niðurskrifuð heldur aðeins munnlega og misfórust þau í þeim meðförum.
„Hún var 1,8 kg, hraust og mesta yndi í heimi,“ segir Andri sem er eðlilega í sárum eftir dauða síns góða félaga og afar ósáttur við vinnubrögð dýraspítalans.
„Þetta er meira en bara mannleg mistök. Ég er matreiðslumaður og ég skrifa niður mínar uppskriftir. Þegar er um að ræða líf dýra og þá myndi ég halda að maður skrifaði niður öll fyrirmæli varðandi meðferð, að það væri grundvallarregla,“ segir Andri í samtali við DV.
Andri segir að fyrstu viðbrögð dýralæknisins sem um ræðir er hann greindi henni frá málavöxtum hafi verið að bjóða endurgreiðslu á meðferðinni. „Ég komst að þessu sjálfur, ég hafði samband við aðra dýralækna og spurðist fyrir og svo hafði ég samband við hana. Fyrstu viðbrögðin voru að bjóða mér endurgreiðslu. En mér gæti ekki verið meira sama um þennan 20 þúsund kall. Þetta snýst um miklu meira en það,“ segir Andri.
Hann ætlar lengra með málið. „Ég ræði við lögfræðing og ég ætla með málið í MAST (Matvælastofnun).“
„Og áður en fólk segist vera ánægt með þjónustu þar og fleira þá var ég það þangað til þeir drápu hundinn minn,“ segir Andri í Facebook-færslu þar sem hann fer yfir málið, jafnframt því sem hann kveður tíkina sína með hjartnæmum hætti.
„Við hörmum að þetta skuli hafa gerst og erum að fara yfir verkferla, þannig að það geti ekki gerst aftur að fyrirmæli lyfjagjöf séu ekki skrifuð niður,“ er svarið sem dýralæknir hjá Dýraspítalanum í Víðidal veitti er DV hafði samband við og bar málið undir hann. Vildi dýralæknirinn að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Ljóst er að dýraspítalinn og dýralæknirinn viðurkenna mistökin.