Í dag greinir The Sun frá því að Joe Maguire, bróðir hans, hafi einnig tekið þátt í slagsmálunum. Þá segir fjölmiðillinn einnig frá því að Daisy Maguire, systir þeirra, hafi verið stungin og að það hafi verið kveikjan að slagsmálunum. Slagsmálin eru sögð hafa hafist fyrir utan skemmtistað eftir að „skuggalegur maður“ byrjaði að ræða við Daisy. Maðurinn fékk höfnun frá henni og ákvað þá að stinga hana í höndina sem olli því að það blæddi og í kjölfarið leið yfir hana.
Þá stigu bræðurnir Harry og Joe inn í leikinn og slagsmálin brutust út. Maguire-bræðurnir voru báðir handteknir í kjölfar slagsmálanna en gríska lögreglan staðfesti það meðal annars að Harry hafi verið með kjaft og síðan kýlt lögregluþjón. Þeir bræður voru báðir kærðir en sagt er að þeir hafi fengið að fara heim til Englands. Lögmaður á vegum þeirra mun flytja málið en þeir þurfa ekki að vera á staðnum.
Þann 5. september næstkomandi á enska landsliðið að spila í Þjóðardeildinni við íslenska landsliðið á Laugardalsvellinum. Vandræðagangurinn hjá Harry Maguire gæti gert það að verkum að hann fái ekki að spila gegn Íslandi, hvort sem hún haldi honum lengur í landinu eða þá að hann missi sætið sitt.