Landsréttur staðfesti fyrir helgi öðru sinni gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa ráðist á lögmann sinn og hótað, hótað barnsmóður sinni og að hafa ráðist á einn til. Verður maðurinn í gæsluvarðhaldi til 15. september.
Þann 20. júlí hafi lögreglu borist tilkynning vegna hótana sem lögmönnum mannsins hafði borist frá manninum. Var maðurinn þá handtekinn og fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Á leið á lögreglustöð hafi sá grunaði sagt við lögreglumenn að lögmennirnir sínir væru réttdræpir og að hann ætlaði að finna þá og drepa. Annar lögmaðurinn hafði fengið sms skilaboð frá manninum: „Ég ætla að drepa þig í kvöld,“ „Ég er á leiðinni heim til þín,“ og „Ég vil að þú verðir viðstaddur þegar ég drep börnin þín.“
Auk hótananna er maðurinn grunaður um að hafa í júní ruðst inn á lögmannsstofu, tekið lögmann þar hálstaki og hótað starfsfólki lífláti. Í maí er maðurinn sagður hafa slegið brotaþola í andlitið með hátalara þannig að hann hlaut áverka á andlit, eymsli í tönnum og tognun í hálsi. Seint á síðasta ári er maðurinn jafnframt grunaður um alvarlegar hótanir gegn barnsmóður sinni og að hafa um leið rofið nálgunarbann.
Ef litið er til brotaferils kærða á síðustu vikum og mánuðum er það mat héraðssaksóknara að „yfirgnæfandi líkur“ séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi sinni. Hann hafi jafnframt hlotið 10 mánaða fangelsisdóm fyrir brot gegn valdstjórninni og hótanir.