Rekja má flest smit undanfarna daga til smitsins á Hótel Rangá. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Um er að ræða svokallað „Akranessmit“ og er sama veiruafbrigðið og hefur verið á sveimi hér á landi frá því fyrir verslunarmannahelgi. Alma Möller landlæknir segir að hún sé bjartsýn á að það nái að klára þetta og benti Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á að hlutfall greindra í sóttkví sé komið nálægt því sem það var þegar best lét í fyrri bylgjunni. Þá var hlutfallið 57% en er í dag 54%. Þegar smitin fóru fyrst af stað nú fyrir verslunarmannahelgi hafi hlutfallið verið um þriðjungur.
Samkvæmt spálíkani Háskóla Íslands sem birt var í síðustu viku er talað um að eitt til sex smit muni greinast á dag, þó einstaka daga gæti talan hækkað. Alma segist spá því að það muni taka fram í september og jafnvel út september að ná niðurlögum þessarar bylgju. „Við höldum að það sé hægt, við gerðum það í vor og við gerum það aftur,“ sagði Alma.
Spurt var um akstur Kynnisferða á Keflavíkurflugvöll og kom fram að leiðir eru nú í vinnslu sem myndu heimila ferðamönnum sem lenda á Keflavíkurflugvelli og eru í sóttkví að nýta sér almannasamgöngur eins og Kynnisferðir bjóða upp á. Ráðuneytið vinnur að þeim reglum í samvinnu við Landlækni.
Alma sagði jafnframt að nú væri verið að vinna að því að útbúa reglur um kórastarf, en erlendis eru ítarlegri sóttvarnarreglur sem gilda um þá starfsemi en hér. Að sögn Ölmu hefur landlæknisembættinu borist erindi um að skýra betur reglur sem gilda um kórastarf, en embættið hefur ekki „komist í það.“ Nú eigi að fara í það verkefni.