Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með eftirlit með sóttvörnum í miðbæ Reykjavíkur í gær, föstudag. Aðstæður voru athugaðar á tólf samkomustöðum og reyndust níu staðir til fyrirmyndar. Tveir staðir þurftu að gera úrbætur á borðaskipan þar sem tveggja metra regla var ekki virt en á einum stað var staðan orðin óviðunandi. Segir í dagbók lögreglu:
„Þá höfðu starfsmenn eins samkomustaðar misst tök á mannfjölda svo ástandið var orðið óviðunandi. Of margir voru inni á staðnum og ekki unnt að tryggja tveggja metra reglu. Starfsmönnum var gert að gera ráðstafanir vegna þessa tafarlaust. Skrifuð verður skýrsla á brotið.“