Flugslys varð fyrir skemmstu á flugvellinum á Ísafirði. Engin slys urðu á fólki en búið er að loka vellinum á meðan unnið er að rannsókn málsins samkvæmt Guðjóni Helgasyni upplýsingafulltrúa Isavia. Svo virðist vera sem um slys í flugtaki sé að ræða. Guðjón gat ekki gefið upp hve margir voru í vélinni.
Völlurinn er sem áður segir lokaður á meðan beðið er eftir rannsóknarnefnd samgönguslysa en ekki er hægt að flytja vélina af brautinni áður en aðstæður hafa verið rannsakaðar. Flugferð Iceland Air Connect klukkan 16:50 var því aflýst. Ekki eru fleiri flug á áætlun í dag.